Sundby, sem er efstur í heimsbikarnum í skíðagöngu, hefur átt erfitt uppdráttar á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí en búist var við miklu af honum fyrir leikana.
Norðmaðurinn endaði í 13. sæti í 15km göngu með hefðbundinni aðferð síðastliðinn föstudag og var ríflega einni og hálfri mínútu á eftir sigurvegarnum Dario Cologna frá Sviss.
Gro Johnsrud Langslet, móðir Martins, horfði á gönguna í beinni útsendingu vefvarps Dagbladet í Noregi og greip um andlitið þegar hún sá í hvað stefndi.
„Þú ert slakasti Norðmaðurinn. Þú ættir að fara heim til þín,“ sagði Gro um soninn en svo virtist sem hún væri að slá á létta strengi.
Hún dró þó ekkert úr orðum sínum þegar Martin nálgaðist endamarkið. „Sjáið þetta. Hann á ekki möguleika,“ sagði mamman.
Martin Sundby nældi sér þó í verðlaun tveimur dögum síðan þegar hann kom þriðji í mark í 30km göngunni.
Móðir hans missti sig ekkert af kæti yfir því heldur sagði hún: „Hann er ekki jafnlélegur og þessi úrslit gefa til kynna. Þetta er það versta sem ég hef séð til hans í ár.“
Takk fyrir það, mamma.

