Martina Sablikova kom í mark á 6:51.54 mínútum og var 2,74 sekúndum á undan Hollendingnum Ireen Wust. Þetta eru önnur verðlaun Martinu á leikunum en hún varð í öðru sæti í 3000 metra hlaupinu.
Sablikova, sem er 26 ára gömul, varði þar með Ólympíutitil sinn frá því í Vancouver fyrir fjórum árum síðan en þá vann hún þó með mun minni mun. Sablikova varð síðan fjórða í þessari grein í Tórínó þegar hún var 18 ára gömul.
Ireen Wust var að vinna sín þriðju silfurverðlaun á leikunum í Sotsjí (1000, 1500 og 5000 metra hlaup) en hún vann þá tékknesku hinsvegar í 3000 metra hlaupinu og er því alls komin með fjóra verðlaunapeninga um hausinn.
Hin 35 ára gamla Carien Kleibeuker frá Hollandi vann bronsið en það eru fyrstu verðlaun hennar á Ólympíuleikum.


