Óveðrið í Mýrdal og undir Eyjafjöllum nær hámarki nú síðdegis með vindhviðum allt að 40-45 m/s. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Stormur og hríðaveður er á Hellisheiði og í Þrengslum og vindhviður allt að 40 m/s á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Lagast mikið á milli klukkan 20 og 22. Um mest allt norðan- og austanvert landið fer veður versnandi fram á kvöldið. Stormur verður og stórhríð á flestum fjallvegum fram á nóttina, en á láglendi hlánar með slyddu og rigningu, en þó ekki á Vestfjörðum fyrr en seint í kvöld.
Færð og aðstæður
Varað er við óveðri víða og eru einhverjir vegir bæði á Vestfjörðum og Norðurlandi orðnir ófærir. Einnig er varað við
sandbyl á Skeiðarársandi og Mýrdalssandi.
Það er hálka og stórhríð á Hellisheiði en hálkublettir og skafrenningur í Þrengslum og undir Ingólfsfjalli.
Hálkublettir eru einnig á Mosfellsheiði og hálka er sumsstaðar í uppsveitum á Suðurlandi. Hálka er á Bláfjallavegi og í
Kjósarskarði en flughált í Efri Grafningi. Óveður er á Reynisfjalli og undir Eyjafjöllum.
Það er hálka eða hálkublettir á köflum á Vesturlandi, einkum á útvegum. Varað er við óveðri undir Hafnarfjalli, við
Hafursfell, Vatnaleið og á Fróðárheiði.
Á Vestfjörðum er víða hvasst og skafrenningur eða ofankoma. Ófært og stórhríð er á Klettshálsi, Þröskuldum og
Steingrímsfjarðarheiði og þar er ekki útlit fyrir að opnist í dag. Þæfingur er á kafla í Djúpinu.
Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Norðurlandi og hríðarveður. Ófært og stórhríð er á Þverárfjalli og ófært og óveður
er á Öxnadalsheiði. Ófært er bæði á Hólasandi og Dettifossvegi.
Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Austurlandi og sumsstaðar skafrenningur eða él. Vegur er auður frá Djúpavogi suður um en óveður í Hvalnesi og í Öræfum. Sandbylur er á Skeiðarársandi og Mýrdalssandi.
Innlent