Skjótt skipast veður í lofti. Nú snjóar á höfuðborgarsvæðinu en kuldaskil eru yfir suðvestanverðu landinu. Suðvestanlands kemur víðast til með að snjóa fram á kvöld, en síðan léttir til og frystir. Á undan skilunum er rigning og norðan- og norðvestanlands er hætt við að það geri flughálku þegar vætir á ísaða vegina, ekki síst á fjallvegum.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni er greint frá hálku og þoku á Sandskeiði og Hellisheiði. Annars eru flestir vegir greiðfærir á Suður- og Suðvesturlandi en eitthvað er um hálkubletti. Snjóþekja er á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og á Suðurnesjum.
Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi. Snjóþekja og snjókoma er á Fróðárheiði og á Útnesvegi.
Á Vestfjörðum er snjóþekja á Þröskuldum. Þæfingur er frá Bjarnafirði og í Reykjafjörð á Ströndum. Annars er hálka eða hálkublettir á flestum vegum.
Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Norðurlandi og sumsstaðar éljagangur. Flughálka er á Þverárfjalli, Vatnsskarði og í Skagafirði einnig frá Sauðárkrók að Hofsósi. Flughált er líka frá Tjörnesi að Kópaskeri.
Á Austurlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum og sumstaðar éljagangur. Greiðfært er frá Reyðarfirði suður um með ströndinni.
Innlent