Sport

49ers spila um NFC-titilinn þriðja árið í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kapernick fagnar snertimarki sínu í kvöld. Hér líkir hann eftir "Superman-fagninu" sem Cam Newton hjá Carolina er þekktur fyrir.
Kapernick fagnar snertimarki sínu í kvöld. Hér líkir hann eftir "Superman-fagninu" sem Cam Newton hjá Carolina er þekktur fyrir. Mynd/AP
Colin Kaepernick fór fyrir San Francisco 49ers sem vann öruggan sigur á Carolina Panthers, 23-10, í undanúrslitaleik NFC-deildarinnar í NFL vestanhafs í kvöld.

Kaepernick kastaði fyrir einu snertimarki í leiknum og skoraði eitt sjálfur eftir hlaupakerfi. Hann kastaði alls 196 jarda í leiknum.

Vörn 49ers var gríðarlega öflug í leiknum og sá til þess að Carolina komst ekki á blað í síðari hálfleik eftir að hafa leitt, 10-6, í þeim fyrri. Cam Newton, leikstjórnandi Carolina, komst aldrei á flug í kvöld.

Þetta er þriðja árið í röð sem að 49ers kemst í úrslitaleik NFC-deildarinnar en liðið mætir Seattle Seahawks í úrslitaleiknum um næstu helgi. Sigurvegarinn mætir svo sigurvegara AFC-deildarinnar í úrslitaleik NFL, Super Bowl, í New York í byrjun næsta mánaðar.

Denver Broncos og San Diego Chargers eigast nú við í síðari undanúrslitaviðureign AFC-deildarinnar. New England Patriots tryggði sér sæti í úrslitaleik AFC-deildarinnar með sigri á Indianapolis Colts í nótt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×