Harmageddon

Sannleikurinn: Unglingar á slagsmálahátíð í Smáralind

Andri Þór Sturluson skrifar
Þvílíkir snillingar. Bítlar sinnar kynslóðar.
Þvílíkir snillingar. Bítlar sinnar kynslóðar.
„Ég var tilbúinn að fá glóðarauga en nennti ekki að standa í brotnu nefi eða tapaðri tönn,“ segir Logi Snær Briem sem tók þátt í slagsmálahátíð í Smáralind í smábænum Kópavogi í dag.

Vine stjörnurnar Jerome Jarre og Nash Grier, einhver stærstu nöfnin í afþreyingarheiminum í dag, eru komnir hingað til lands til að mótmæla ákvörðun Sigurðar Inga, umhverfis- og auðlindaráðherra, um að mörk friðlands Þjórsárvera yrðu dregin í kringum fyrirhugaða lónsstæði - en ekki fyrir neðan það og um leið opna fyrir nýja gerð Norðlingaölduveitu.

Jarome og Nash eru einhverskonar Auddi og Sveppi internetsins en öfugt við þá íslensku tekst þeim að fá fólk til að hlægja með 6 sekúndna myndbrotum en það tekst Audda og Sveppa ekki með hálftíma sjónvarpsþáttum.

Smáralind gjörsamlega fylltist af unglingum en þangað höfðu þeir boðað aðdáendur sína kl 16 í dag og átti undirritaður erfitt með að troða sér fremst í gegnum þvöguna til að líta goðin augum. En það tókst þó á endanum því unglingarnir voru mikið yngri og þoldu illa hnefahögg.

Öryggisverðir Smáralindar voru sofandi þegar gríðarleg múgæsing myndaðist og verslunarmiðstöðin logaði í slagsmálum. Slíkur var æsingurinn að einhverjum krakkafjanda tókst að hnupla myndavélinni minni þegar ég var upptekinn við að hrinda öðrum inn í jólatré en svona virkar karma stundum. Ljóst var að stjörnurnar höfðu fyrir löngu misst tökin á uppákomunni og flúðu út á bílastæðið norðanmegin þar sem þeir náðu að klöngrast upp á þak á jeppabifreið og verjast ágengni aðdáenda. Það fannst fólki töff og stuttu síðar var enginn lengur maður með mönnum nema vera staddur upp á þaki bifreiðar sem margar hverjar urðu fyrir töluverðum skemmdum vegna þess. Þeir eru því margir sem óska þess núna að hafa ekki ákveðið að fara í Smáralind í dag og skipta ljótu skyrtunni sem frænka gaf í jólagjöf.

Strákarnir hafa verið hér á landinu í nokkra daga og hafa þegar fjöldi 6 sekúndna myndbanda birst á Vine-aðgangi þeirra, 42 sekúndur alls, sem öll hafa verið listaverk og er hugmyndaflug þeirra slíkt að jafnvel skuldaniðurfellingarleið forsætisráðherra virðist vera ófrumleg klisja í samanburði.





Sannleikurinn rekur öfluga og óvæga fréttastofu þar sem engum er hlíft og sannleikurinn skiptir ekki höfuðmáli. Sannleikurinn er háður öllum stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum um fréttaefni sitt. Fréttastofa Sannleikans hefur Facebook-síðu og verður fljótlega einnig á Vine.



×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.