Lífið

Herramaður og prúðmenni í dag

Ugla Egilsdóttir skrifar
Hörður Sveinsson er betri maður í dag vegna kartöflunnar.
Hörður Sveinsson er betri maður í dag vegna kartöflunnar.
Hörður Sveinsson ljósmyndari fékk kartöflu í skóinn þegar hann var fjögurra ára gamall. „Ég man mjög vel eftir því, þetta var mjög trámatískt í þeim skilningi að ég man þetta enn þó að ég muni fátt annað frá því að ég var fjögurra ára.

Ég man ekki hvað ég gerði af mér, en ég vaknaði og mér brá rosalega þegar ég sá að ég hafði fengið kartöflu. Ég henti henni út um gluggann á kjallaraíbúðinni sem við fjölskyldan bjuggum í við Laugateig.

Þegar mamma spurði mig hvað ég hefði fengið í skóinn sagðist ég hafa fengið mandarínu og að ég væri búinn að borða hana. Svo gekk mamma eitthvað á mig til að fá mig til að segja satt en ég þrjóskaðist við og laug, enda var ég mjög þrjóskt barn.

Ég er ekki jafn þrjóskur í dag. Ætli þetta hafi ekki orðið til þess að ég varð þessi herramaður og þetta prúðmenni sem ég er í dag.

Reyndar fékk ég líka kartöflu í skóinn í fyrra. Þá vildu börnin mín að ég setti skóinn út í glugga. Svo fékk ég innpakkaða kartöflu með skilaboðum frá Stekkjarstaur þar sem stóð að ég myndi ekki fá neitt í skóinn af því að ég færi alltaf svo seint að sofa.

„Hvað ertu eiginlega að pæla að setja skóinn út í glugga,“ stóð í skilaboðunum. Börnunum mínum fannst þetta mjög fyndið.

Börnin mín hafa aldrei fengið kartöflu frá jólasveininum, enda einstaklega prúð börn. Þau fá bara kartöflur í matinn.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×