Sport

Eygló Ósk skráði nafn sitt í sögubækurnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir.
Eygló Ósk Gústafsdóttir. Mynd/Valli
Eygló Ósk Gústafsdóttir skráði sig í sögubækurnar í gær er hún varð fyrsta íslenska sundkonan til þess að keppa í úrslitum á Evrópumeistaramóti í 25 metra laug. Eygló hafnaði í áttunda sæti af tíu keppendum í úrslitum á tímanum 59,39 sekúndum.

Aðeins Ragnheiður Runólfsdóttir hafði áður keppt í úrslitum á stórmóti. 22 ár eru liðin síðan Skagakonan keppti í úrslitum í 100 metra bringusundi á EM í Aþenu árið 1991. Ragnheiður var valin íþróttamaður ársins það ár.

„Ég er mjög ánægð með árangurinn. Ég ætlaði mér að komast í úrslit en bjóst ekki við því að enda svona ofarlega,“ segir Eygló sem var með fjórtánda besta tíma allra keppenda í greininni. Eygló bætti Íslandsmet sitt í greininni á fimmtudag þegar hún synti á 59,26 sekúndum.

„Ég var minna stressuð þá og það gæti hafa spilað inn í,“ segir sundmærin átján ára úr Ægi. Hún segir hafa verið afar gaman að keppa í úrslitum og reynslan muni nýtast henni vel.

Stemningin var gríðarlega góð í sundhöllinni í Herning á Jótlandi þegar Eygló stakk sér til sunds í úrslitum. Heimakonan Mie Nielsen þótti líklega til afreka og sú sautján ára stóð undir væntingum. Nielsen kom fyrst í mark á 55,99 sekúndum við mikinn fögnuð áhorfenda sem voru á fjórða þúsund.

„Frá árinu 1986 hef ég verið á mörgum Evrópumeistara- og heimsmeistaramótum auk þrennra Ólympíuleika. Ég hef ekki upplifað svona stemningu ef frá eru taldir Ólympíuleikar,“ segir fararstjórinn Magnús Tryggvason. Magnús, sem þjálfar hjá Hamri í Hveragerði, var afar ánægður með frammistöðu Eyglóar í gær.

Eygló keppir í 50 metra baksundi í dag og ætlar að njóta þess að synda afslöppuð enda er um aukagrein að ræða hjá henni. Stóra stundin verður á morgun þegar hún stingur sér til sunds í 200 metra baksundi.

„Ég ætla að synda hratt,“ segir Eygló og markmiðið er klárt. Að komast í úrslit. Hún á tíunda besta tíma keppenda í greininni og því er sæti í úrslitum vel mögulegt.

Eygló bætti Íslandsmet sitt í greininni á Íslandsmótinu á dögunum þegar hún kom í mark á 2:06,59 mínútum. Fróðlegt verður að sjá hvort Ægiskonunni takist að bæta enn einni skrautfjöðrinni í hattinn á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×