Erlend fjárfesting og markmið í alþjóðasamstarfi Þorsteinn Pálsson skrifar 21. september 2013 06:00 Áhugi Kínverja á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum leiddi til þess að innanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar setti reglugerð sem takmarkaði möguleika þeirra sem búa á evrópska efnahagssvæðinu til að fjárfesta í fasteignum hér á landi. Eftir það urðu þær háðar leyfum. Þau voru aftur háð því að umsækjandi gæti sýnt fram á búsetu eða áform um atvinnurekstur. Ágreiningur var um hvort þetta samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið án þess að á það hafi reynt. Nýi innanríkisráðherrann ákvað því að fella reglugerðina úr gildi. Um margt skiljanleg ákvörðun. Þetta reglugerðahringl ráðherranna tveggja gefur þó tilefni til að skoða hugmyndafræðina að baki reglum um erlenda fjárfestingu í stærra samhengi. Athyglisvert er til að mynda að nýi innanríkisráðherrann er einhver eindregnasti andstæðingur frjálsrar evrópskrar fjárfestingarstefnu í sjávarútvegi. Eigi að síður er það eitt af fyrstu verkum hans að opna aftur fyrir óheftar evrópskar fjárfestingar í fasteignum og jarðnæði. Þetta dæmi sýnir að það er ekki bara hugmyndafræði sem á hverjum tíma ræður ríkjum í þessum efnum. Þar kemur einnig til mismunandi hagsmunamat sem vissulega getur stuðst við skynsamleg rök. En það breytir ekki hinu að mikilvægt er að reglur um þessi efni byggi á skýrum hugmyndafræðilegum og siðferðilegum stoðum. Um leið verður fjárfestingarstefnan að taka mið af því hvernig Ísland vill tryggja alþjóðlega viðskiptahagsmuni sína. Í nútímasamfélagi eru reglur um þessi efni því hluti af utanríkispólitíkinni. Það flækir málin, en er veruleiki sem ekki verður horft fram hjá.Lifandi spurningar Í samningnum um evrópska efnahagssvæðið er einhliða undanþága vegna sjávarútvegsfjárfestinga á Íslandi. Íslendingar hafa á hinn bóginn nýtt sér í stórum stíl frelsi til fjárfestingar á þessu sviði í Evrópu með góðum árangri. Þannig hefur Evrópusambandsfiskur til að mynda komið til vinnslu hér á landi. Erlend fjárfesting er lykilatriði við endurreisn Íslands eftir gjaldmiðilshrunið og fall bankanna. Frelsi í þeim efnum hlýtur því að verða höfuðmarkmið. Gild rök eru þó fyrir ýmsum takmörkunum. Í því samhengi getur gagnkvæmni verið eðlilegt skilyrði og siðferðilegar takmarkanir sem lúta að mannréttindum og viðskiptaháttum hljóta líka að vera álitaefni. Meðan viðræður stóðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu vöknuðu spurningar um erlenda fjárfestingu í sjávarútveg og jarðnæði. Eigi á annað borð að víkja frá meginreglunni um frelsi er eðlilegt að sömu sjónarmið gildi um þessa tvo þætti. Þetta eru lifandi spurningar því að stöðnun í þróun alþjóðaviðskipta þýðir stöðnun í íslenskum þjóðarbúskap og engin ríkisstjórn mun til lengdar sitja á friðarstóli stöðnunar. Það er því aðeins spurning um tíma hvenær þráðurinn verður tekinn upp að nýju. Gallinn við reglugerðarhringl innanríkisráðherranna tveggja er að engin heilsteypt framtíðarsýn býr þar að baki. Verkefnið núna á að vera endurskoðun á heildarlöggjöfinni um erlendar fjárfestingar í ljósi skýrra markmiða um aukið viðskiptafrelsi á grundvelli dýpra vestræns samstarfs innan Evrópu og við Bandaríkin. Skynsamlegt er að setja nú í lög þær takmarkanir sem nauðsynlegt er talið að verja og raunhæfar þykja í slíkum samningum.Framtíðarmarkmið fremur en hringl Í röðum áköfustu andstæðinga Evrópusambandsaðildar má finna menn sem barist hafa af mikilli einurð gegn fjárfestingarbanni í sjávarútvegi. Það eru því ekki alfarið sömu línur sem skipta mönnum í hópa í þessu máli og um aðildarumsóknina. Þó að ýmsir séu þeirrar skoðunar að erlend fjárfesting eigi að vera frjáls í sjávarútvegi og í jarðnæði er næsta öruggt að margir kjósa að minnsta kosti einhverjar skorður. Þó að fjárfestingarbannið falli tæpast að þeim nýju skrefum sem stefna á að með framsæknu alþjóðasamstarfi eru eigi að síður ýmsar leiðir færar sem fullnægt geta þeim varúðarsjónarmiðum sem mönnum eru hugleikin. Ein leið í þeim efnum er þekkt frá Danmörku og hefur verið viðurkennd í verki af bandalagsþjóðum þeirra. Hún felst í því að gera búsetu í ákveðinn árafjölda að skilyrði fyrir fjárfestingu í jarðnæði og sjávarútvegi. Í Danmörku voru svipuð varúðarsjónarmið uppi í þessum efnum eins og hér og þar líta menn svo á að þeim hafi verið fullnægt með þessu ráði. Í staðinn fyrir að hringla án framtíðarmarkmiðs með reglugerðir er brýnna að setja með lögum niður þá hæla sem nauðsynlegir eru taldir og raunhæfir til að gæta varúðar þar sem nýjar áskoranir með auknu frelsi í alþjóðasamstarfi blasa við. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Áhugi Kínverja á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum leiddi til þess að innanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar setti reglugerð sem takmarkaði möguleika þeirra sem búa á evrópska efnahagssvæðinu til að fjárfesta í fasteignum hér á landi. Eftir það urðu þær háðar leyfum. Þau voru aftur háð því að umsækjandi gæti sýnt fram á búsetu eða áform um atvinnurekstur. Ágreiningur var um hvort þetta samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið án þess að á það hafi reynt. Nýi innanríkisráðherrann ákvað því að fella reglugerðina úr gildi. Um margt skiljanleg ákvörðun. Þetta reglugerðahringl ráðherranna tveggja gefur þó tilefni til að skoða hugmyndafræðina að baki reglum um erlenda fjárfestingu í stærra samhengi. Athyglisvert er til að mynda að nýi innanríkisráðherrann er einhver eindregnasti andstæðingur frjálsrar evrópskrar fjárfestingarstefnu í sjávarútvegi. Eigi að síður er það eitt af fyrstu verkum hans að opna aftur fyrir óheftar evrópskar fjárfestingar í fasteignum og jarðnæði. Þetta dæmi sýnir að það er ekki bara hugmyndafræði sem á hverjum tíma ræður ríkjum í þessum efnum. Þar kemur einnig til mismunandi hagsmunamat sem vissulega getur stuðst við skynsamleg rök. En það breytir ekki hinu að mikilvægt er að reglur um þessi efni byggi á skýrum hugmyndafræðilegum og siðferðilegum stoðum. Um leið verður fjárfestingarstefnan að taka mið af því hvernig Ísland vill tryggja alþjóðlega viðskiptahagsmuni sína. Í nútímasamfélagi eru reglur um þessi efni því hluti af utanríkispólitíkinni. Það flækir málin, en er veruleiki sem ekki verður horft fram hjá.Lifandi spurningar Í samningnum um evrópska efnahagssvæðið er einhliða undanþága vegna sjávarútvegsfjárfestinga á Íslandi. Íslendingar hafa á hinn bóginn nýtt sér í stórum stíl frelsi til fjárfestingar á þessu sviði í Evrópu með góðum árangri. Þannig hefur Evrópusambandsfiskur til að mynda komið til vinnslu hér á landi. Erlend fjárfesting er lykilatriði við endurreisn Íslands eftir gjaldmiðilshrunið og fall bankanna. Frelsi í þeim efnum hlýtur því að verða höfuðmarkmið. Gild rök eru þó fyrir ýmsum takmörkunum. Í því samhengi getur gagnkvæmni verið eðlilegt skilyrði og siðferðilegar takmarkanir sem lúta að mannréttindum og viðskiptaháttum hljóta líka að vera álitaefni. Meðan viðræður stóðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu vöknuðu spurningar um erlenda fjárfestingu í sjávarútveg og jarðnæði. Eigi á annað borð að víkja frá meginreglunni um frelsi er eðlilegt að sömu sjónarmið gildi um þessa tvo þætti. Þetta eru lifandi spurningar því að stöðnun í þróun alþjóðaviðskipta þýðir stöðnun í íslenskum þjóðarbúskap og engin ríkisstjórn mun til lengdar sitja á friðarstóli stöðnunar. Það er því aðeins spurning um tíma hvenær þráðurinn verður tekinn upp að nýju. Gallinn við reglugerðarhringl innanríkisráðherranna tveggja er að engin heilsteypt framtíðarsýn býr þar að baki. Verkefnið núna á að vera endurskoðun á heildarlöggjöfinni um erlendar fjárfestingar í ljósi skýrra markmiða um aukið viðskiptafrelsi á grundvelli dýpra vestræns samstarfs innan Evrópu og við Bandaríkin. Skynsamlegt er að setja nú í lög þær takmarkanir sem nauðsynlegt er talið að verja og raunhæfar þykja í slíkum samningum.Framtíðarmarkmið fremur en hringl Í röðum áköfustu andstæðinga Evrópusambandsaðildar má finna menn sem barist hafa af mikilli einurð gegn fjárfestingarbanni í sjávarútvegi. Það eru því ekki alfarið sömu línur sem skipta mönnum í hópa í þessu máli og um aðildarumsóknina. Þó að ýmsir séu þeirrar skoðunar að erlend fjárfesting eigi að vera frjáls í sjávarútvegi og í jarðnæði er næsta öruggt að margir kjósa að minnsta kosti einhverjar skorður. Þó að fjárfestingarbannið falli tæpast að þeim nýju skrefum sem stefna á að með framsæknu alþjóðasamstarfi eru eigi að síður ýmsar leiðir færar sem fullnægt geta þeim varúðarsjónarmiðum sem mönnum eru hugleikin. Ein leið í þeim efnum er þekkt frá Danmörku og hefur verið viðurkennd í verki af bandalagsþjóðum þeirra. Hún felst í því að gera búsetu í ákveðinn árafjölda að skilyrði fyrir fjárfestingu í jarðnæði og sjávarútvegi. Í Danmörku voru svipuð varúðarsjónarmið uppi í þessum efnum eins og hér og þar líta menn svo á að þeim hafi verið fullnægt með þessu ráði. Í staðinn fyrir að hringla án framtíðarmarkmiðs með reglugerðir er brýnna að setja með lögum niður þá hæla sem nauðsynlegir eru taldir og raunhæfir til að gæta varúðar þar sem nýjar áskoranir með auknu frelsi í alþjóðasamstarfi blasa við.