Lífið

RFF haldið með öðru sniði í ár

Sara McMahon skrifar
Með breyttu sniði RFF fer fram með öðru sniði í ár en fyrri ár. Þórey Eva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri RFF, segir RFF í stöðugri þróun.
Með breyttu sniði RFF fer fram með öðru sniði í ár en fyrri ár. Þórey Eva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri RFF, segir RFF í stöðugri þróun. fréttablaðið/Anton
„Við vildum breyta til og leggja meiri áherslu á viðskiptahliðina, þess vegna kusum við að hafa sýningarnar fyrr um daginn,“ segir Þórey Eva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri RFF. Hátíðin fer fram með öðru sniði í ár en fyrri ár og fara allar tískusýningarnar fram á laugardeginum.

Alls taka sjö hönnuðir þátt í RFF í ár og hefst fyrsta sýningin klukkan 11.30 og sú síðasta klukkan 17 sama dag. „Við litum til erlendu tískuviknanna þegar kom að skipulaginu. Úti byrja fyrstu sýningarnar mjög snemma á morgnana. Tískuiðnaðurinn er mjög ungur hérna heima, RFF er lifandi verkefni og við erum enn að reyna að finna okkar takt.“

Önnur breyting sem á sér stað er sú að í fyrsta sinn gefst gestum færi á að kaupa miða inn á stakar sýningar eða passa á allar sjö sýningarnar. „Við viljum fá sem flesta á sýningarnar og þess vegna ákváðum við að prófa að selja inn á stakar sýningar. Miðasalan hefur farið ótrúlega vel af stað og það er þegar uppselt á nokkrar sýningar,“ segir Þórey Eva og nefnir sýningu tískumerkisins Ellu í því samhengi.

Í ár er RFF haldin í tengslum við Hönnunarmars og því fá gestir hátíðarinnar að upplifa fleira en bara tísku þennan laugardag. „Það verður fullt að gerast í Hörpunni á sama tíma, meðal annars húsgagnasýning, vídeóverk og sýning útskriftarnema úr fatahönnunardeild LHÍ,“ segir Þórey Eva að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.