Sport

Trukkur keyrði á flugvél Vikings

Matt Cassel, leikstjórnandi Vikings, í snjóleiknum um síðustu helgi.
Matt Cassel, leikstjórnandi Vikings, í snjóleiknum um síðustu helgi.
Ferðalag NFL-liðsins Minnesota Vikings til Baltimore um síðustu helgi fer seint í sögubækur félagsins fyrir skemmtanagildi. Það var hrein martröð.

Liðið tapaði á dramatískan hátt í mikilli snjókomu í Baltimore. Til að bæta gráu ofan á svart þá meiddist besti leikmaður liðsins, Adrian Peterson, í leiknum. Hann lét síðan áhorfendur í Baltimore heyra það fyrir að kasta snjóboltum í sig.

Þegar grautfúlir leikmenn Vikings ætluðu að halda heim á leið eftir þessa martröð var ballinu ekki lokið. Þeir komust ekki á loft. Þar var ekki snjókomunni um að kenna.

Trukkurinn sem keyrir veitingar í flugvélarnar í Baltimore lenti nefnilega í árekstri við flugvél Vikings. Skemmdirnar voru það miklar að ekki þótti óhætt að fljúga vélinni fyrr en eftir viðgerð.

Leikmenn Vikings trúðu vart sínum eigin augum og eiga líklega ekki eftir að lenda í öðru eins á næstunni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×