Sport

Íslandsmet bætt í Herning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Blönduð sveit Íslands bætti nokkurra vikna gamalt Íslandsmet SH í 4x50 m skriðsundi á EM í 25 m laug í Danmörku í morgun.

Nýbyrjað er að keppa í boðsundi á alþjóðlegum mótum þar sem körlum og konum er blandað saman. Ísland hafnaði í tólfta sæti í greininni á 1:39,68 mínútum en alls tóku fjórtán sveitir þátt.

Alexander Jóhannnesson synti fyrsta sprett Íslands og synti 50 m skriðsund á 22,79 sekúndum sem er persónuleg bæting. Hann er nú aðeins hálfri sekúndu frá Íslandsmeti Árna Más Árnasonar í greininni.

Fleiri íslenskir keppendur voru svo í eldlínunni í einstaklingsgreinum í morgun. Eygló Ósk Gústafsdóttir náði bestum árangri í hópnum er hún komst í undanúrslit í 50 m baksundi.

Inga Elín Cryer varð neðst af 40 keppendum í 400 m skriðsundi á 4:19,30 mínútum en hún var rúmum fimm sekúndum frá Íslandsmeti sínu í greininni.

Kristinn Þórarinsson og Kolbeinn Hrafnkelsson kepptu báðir í 100 m baksundi. Kristinn endaði í 44. sæti á 54,98 sekúndum en Kolbeinn í 49. og síðasta sæti á 57,63 sekúndum. Hvorugur náði að bæta sinn besta árangur í greininni.

Kristinn keppti svo í 100 m fjórsundi og hafnaði í 35. sæti af 37 keppendum á 56,90 sekúndum. Hann á best 56,09 sekúndur í greininni.

Daníel Helgi Pálsson varð svo í 33. sæti af jafn mörgum keppendum í 200 m flugsundi. Hann synti á 2:06,38 mínútum sem er nokkuð frá hans besta tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×