Fótbolti

Drukku rúmlega 70 bjóra fram á rauða nótt

Leikmenn króatíska liðsins sem fengu sér í tána eftir leikinn á Laugardalsvelli.
Leikmenn króatíska liðsins sem fengu sér í tána eftir leikinn á Laugardalsvelli. samsett mynd/tryggvi
Leikmenn króatíska landsliðsins virðast ekki hafa miklar áhyggjur af seinni leiknum gegn Íslandi ef marka má hegðun margra þeirra eftir markalausa leikinn á Íslandi.

Þá sátu átta leikmenn liðsins að sumbli langt fram á nótt. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis voru bornir rúmlega 70 bjórar upp á herbergi til leikmannanna. Það eru hátt í tíu bjórar á mann.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Mario Mandzukic (leikmaður Bayern), Darijo Srna (fyrirliði og leikmaður Shaktar), Nikica Jelavic (leikmaður Everton), Vedran Corluka (leikmaður Lokomotiw Moskva), Niko Kranjcar (leikmaður QPR), Eduardo da Silva (leikmaður Shaktar), Mateo Kovacic (leikmaður Inter), og Domagoj Vida (leikmaður Dynamo Kiev).

Srna, Corluka, Eduardo og Mandzukic voru allir í byrjunarliðinu. Kranjcar og Kovacic voru á bekknum en hinir sátu upp í stúku á Laugardalsvelli.

Samkvæmt sömu heimildum fór síðasta bjórsendingin upp á herbergi þeirra klukkan fjögur um nóttina. Læti voru í herberginu til fimm. Daginn eftir fannst síðan megn reykingalykt í herberginu.

Króatar gerðu því vel við sig á Íslandi en þeir komu meðal annars til landsins með sinn eigin kokk sem eldaði ofan í þá allar máltíðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×