Fótbolti

Gylfi hvíldur í fimmta Evrópusigri Tottenham í röð

Óskar Ófeiguf Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Tottenham eru með fullt hús og fimm stiga forystu í K-riðli Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir 2-0 sigur á Sheriff Tiraspol í Moldavíu í kvöld.

Tottenham er búið að vinna þrjá fyrstu leiki sína í riðlakeppninni og vann einnig báða leiki sína í forkeppninni. Markatala Tottenham-liðsins í þessum fimm leikjum er 15-0.

Gylfi Þór Sigurðsson sat allan tímann á bekknum í kvöld og knattspyrnustjórinn André Villas-Boas ákvað að hvíla íslenska landsliðsmanninn enda er búið að vera nóg að gera hjá Gylfa að undanförnu.

Jan Vertonghen kom Tottenham í 1-0 strax á 12. mínútu leiksins þegar hann skoraði með skalla eftir stutt horn og fyrirgjöf Danans Christian Eriksen.

Jermain Defoe skoraði seinna markið á 75. mínútu með skoti fyrir utan teig sem fór af varnarmanni og yfir markvörð Tiraspol.

Tottenham átti möguleika að tryggja sér sæti í 32 liða úrslitunum væru úrslitin þeim hagstæð í hinum leik riðilsins en þar sem að Anzhi Makhachkala vann þá 1-0 sigur á Tromsö þurfa Tottenham-menn að bíða aðeins með að gulltryggja sér farseðilinn í útsláttarkeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×