Fótbolti

Urðu meistarar í síðasta heimaleiknum en fengu ekki bikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir sést hér í miðjunni á æfingu með íslenska landsliðinu.
Sara Björk Gunnarsdóttir sést hér í miðjunni á æfingu með íslenska landsliðinu. Mynd/Arnþór
Sara Björk Gunnarsdóttir og Þóra Björg Helgadóttir tryggðu sér í dag sænska meistaratitilinn með liðsfélögum sínum í LdB Malmö þegar liðið vann 2-0 sigur á heimavelli á móti Umeå í næstsíðustu umferðinni en það var hellirigning í Malmö í dag.

Þetta var síðasti heimaleikur LdB Malmö á tímabilinu en þrátt fyrir það fengu stelpurnar ekki afhentan bikarinn í leiksloks eins og venjan er til dæmis á Íslandi.

Sænska knattspyrnusambandið segir að bikarinn fari ekki á loft fyrr en eftir að mótinu er lokið og það þýðir að Malmö fær bikarinn afhentan um næstu helgi eftir útileik á móti Mallbacken.

Sara Björk og Þóra fögnuðu engu að síður vel í leikslok og var meðal annars sungið fyrir ljósmyndara og myndatökumenn inn í sturtu. Stelpurnar í LdB Malmö settu líka allar upp gullhatta í tilefni af titlinum.

Sara Björk fór langt með að innsigla sigur með því að skora annað mark LdB Malmö með laglegum skalla en hún vann þá skallaeinvígi fyrir framan mark Umeå.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×