Fótbolti

Frábær innkoma Jóhanns Bergs dugði næstum því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
AZ Alkmaar og PAOK eru jöfn á toppnum í L-riðli Evrópudeildarinnar eftir 1-1 jafntefli í Hollandi í kvöld. AZ virtist hafa tryggt sér sigurinn í leiknum þegar Grikkirnir jöfnuðu í uppbótartíma.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu og það er óhætt að segja að íslenski landsliðsmaðurinn hafi breytti miklu í leik AZ eftir að hann kom inn á völlinn.

Jóhann Berg ógnaði með bæði skotum og sendingum og stórsókn AZ skilaði loksins sigurmarkinu átta mínútum fyrir leikslok.

Aron Jóhannsson, sem var í byrjunarliðinu, var nálægt því að skora á 72. mínútu þegar hann skallaði í slána á 70. mínútu leiksins.

Jóhann Berg átti frábært skot á 80. mínútu sem markvörður PAOK varði vel en áður hafði Jóhann Berg skapað nokkur færi fyrir félaga sína.  

Mark AZ kom síðan loksins á 81. mínútu þegar miðvörðurinn Jeffrey Gouweleeuw var á réttum stað eftir Grikkjunum mistókst að koma boltanum almennilega frá eftir hornspyrnu.

AZ fékk færi til að bæta við mörkum en tókst ekki og Dimitris Salpingidis tryggði PAOK stig þegar hann jafnaði metin í uppbótartímanum eftir klaufaskap í vörn hollenska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×