Fótbolti

Aron og Jóhann Berg hetjur AZ Alkmaar í Evrópudeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar.
Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar.
Aron Jóhannsson og Jóhann Berg Guðmundsson voru hetjur AZ Alkmaar sem vann 3-1 útisigur á Atromitos frá Aþenu í Grikklandi í kvöld. Leikurinn var fyrri viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Jóhann Berg gestunum frá Hollandi yfir á 51. mínútu. Kantmaðurinn tók þá boltann snyrtilega á kassann innan teigs og hamraði boltann neðst í fjærhornið.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok bætti Aron við marki og staðan orðin 2-0. Framherjinn fór þá illa með varnarmann heimaliðsins og kláraði færið gegn markverðinum vel. Aron hefur farið á kostum í upphafi leiktíðar og skorað fimm mörk í jafnmörgum leikjum.

Heimamenn minnkuðu muninn skömmu síðar úr vítaspyrnu. Allt stefndi í 2-1 sigur gestaliðsins þegar Jóhann Berg kórónaði Íslendingakvöld í Aþenu með góðu marki. AZ er í góðum málum fyrir síðari leikinn í Alkmaar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×