Íslenski boltinn

Búin að skora 65 prósent marka Selfossliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss í Pepsi-deild kvenna.
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss í Pepsi-deild kvenna. Mynd/Daníel
Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði Selfoss í Pepsi-deild kvenna, skoraði bæði mörk liðsins í 2-0 útisigri á Aftureldingu í gær og hefur þar með skorað 11 mörk í 12 deildarleikjum í sumar.

Selfoss bætti stigamet félagsins í efstu deild með þessum sigri og það þótt að enn séu sex leikir eftir af mótinu. Selfoss er með 17 stig í 12 leikjum í 5. sæti deildarinnar en fékk 16 stig í 18 leikjum allt tímabilið í fyrra.

Það efast enginn um þátt Guðmundu Brynju í þessum árangri Selfossliðsins en hún hefur skorað 11 af 17 mörkum liðsins eða 65 prósent marka Selfossliðsins í sumar. Ef mörkin hennar væri tekin í burtu þá hefði Selfossliðið aðeins verið með sjö stig og þá í bullandi fallbaráttu.

Guðmunda Brynja Óladóttir er aðeins 19 ára gömul og er því yngsti fyrirliðinn í Pepsi-deild kvenna. Hún fékk fyrirliðabandið þegar Gunnar Rafn Borgþórsson tók við Selfossliðinu og hefur heldur betur blómstrað síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×