Fótbolti

Bæjarráð Kópavogs segir KSÍ refsa Blikum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjálmar Hjálmarsson er bæjarfulltrúi hjá Kópavogsbæ.
Hjálmar Hjálmarsson er bæjarfulltrúi hjá Kópavogsbæ. Mynd/Samsett
Mikið álag hefur verið á karlaliði Breiðabliks í knattspyrnu sem mætir Aktobe frá Kasakstan í síðari viðureign liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Líkt og greint var frá í Fréttablaðinu í morgun verður leikurinn í kvöld sá tólfti á 38 dögum. Liðið hefur fengið þriggja daga hvíld fyrir Evrópuleiki sína sex og tveggja daga hvíld fyrir bikar og deildarleiki sem liðið hefur spilað á milli. Taka verður með í reikninginn flugferðir Blika utan og heim fyrir útileikina þrjá í Evrópukeppninni.

Blikar reyndu að fá leik sínum gegn Fram í undanúrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu síðastliðinn sunnudag frestað. Blikar léku í Kasakstan á fimmtudaginn, flaug beint eftir leik til Frankfurt þar sem liðið varði föstudeginum. Leikmenn flugu svo til Íslands síðdegis á föstudeginum og voru komnir til landsins tæpum tveimur sólarhringum fyrir bikarleikinn gegn Fram.

Óskuðu þeir fyrst eftir því að leikurinn færi fram á mánudag en síðar að leikið yrði klukkan 20 um kvöldið en ekki klukkan 16. Beiðni Blika var neitað en þeir töpuðu leiknum 2-1.

Bæjarráð Kópavogs er greinilega ósátt því ráðið ályktaði um málið á fundi sínum í morgun að tillögu Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra.

„Bæjarráð Kópavogs fagnar árangri Breiðabliks í Evrópudeildinni í knattspyrnu en undrast að ekki hafi verið tekið tillit til óska Breiðabliks um breytt leikjafyrirkomulag.  Með því má segja að liðinu hafi verið refsað fyrir góðan árangur."

Meðal þeirra sem sæti eiga í ráðinu er hinn gallharði Bliki Hjálmar Hjálmarsson auk Ómars Stefánssonar vallarvarðar á Kópavogsvelli. Þá gegnir Blikinn Páll Magnússon starfi bæjarritara.

Fundargerðina má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×