Íslenski boltinn

Eyjakonur fá liðsstyrk á elleftu stundu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hlíf í leik með ÍBV gegn KR síðastliðið sumar.
Hlíf í leik með ÍBV gegn KR síðastliðið sumar. Mynd/Ernir
Hlíf Hauksdóttir er genginn í raðir Eyjakvenna á nýjan leik frá Valskonum. Hlíf hefur þegar fengið félagaskiptin staðfest.

ÍBV tekur á móti Stjörnunni í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna annað kvöld. Stjarnan hefur unnið alla leiki sína í deildinni í sumar og hefur átta stig forskot á ÍBV og Breiðablik sem deilda öðru sætinu.

Hlíf er kærkomin viðbót við lið ÍBV sem er með afar breytt lið frá síðustu leiktíð. Lykilmenn á borð við Sigríði Láru Garðarsdóttur og Kristínu Ernu Sigurlásdóttur eru meiddir auk þess sem Bryndís Jóhannesdóttir verður í banni gegn Stjörnunni.

Hlíf hefur dvalið stóran hluta sumars á bekknum en hún er uppalin á Suðurlandi. Hún spilaði 14 leiki með ÍBV í deildinni í fyrra og skoraði í þeim tvö mörk.

Leikur ÍBV og Stjörnunnar hefst klukkan 18 á morgun og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×