Íslenski boltinn

Þór/KA vann en Sandra María meiddist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen
Sandra María Jessen Mynd/Anton

Þór/KA sótti þrjú stig á Valbjarnarvöllinn í Pepsi-deild kvenna í kvöld þegar liðið vann 4-1 sigur á botnliði Þróttar. Þór/KA missti Söndru Maríu Jessen meidda af velli í fyrri hálfeik og lenti 1-0 undir en svaraði með fjórum mörkum á síðustu 28 mínútum leiksins.

Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var á leiknum og tók þessar myndir hér fyrir ofan.

Sandra María Jessen fór af velli á 24. mínútu en varamaður hennar, Katla Ósk Káradóttir, átti eftir að skora seinna í leiknum. Sandra María hefur verið að koma til baka eftir meiðsli en hún var önnur af markahæstu leikmönnum Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Petrea Björt Sævarsdóttir kom Þrótti í 1-0 á 59. mínútu en Mateja Zver jafnaði metin á 62. mínútu og Lillý Rut Hlynsdóttir kom Þór/KA yfir mínútu síðar. Katla Ósk Káradóttir skoraði þriðja markið á 78. mínútu og Katrín Ásbjörnsdóttir innsiglaði svo sigurinn.

Þór/KA hefur átta stig og er í þriðja sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliðum Breiðabliks og Stjörnunnar sem eiga bæði leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×