Fótbolti

Minntust látins félaga á 27. mínútu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn AIK og IFK Gautaborgar gerðu hlé á leik sínum í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi til að minnast markvarðarins Ivan Turina.

Boltanum var spyrnt útaf þegar 27. mínútan nálgaðist og við tók tilfinningaþrungin stung til minningar um markvörðinn. Turina fannst látinn í rúmi sínu síðastliðinn fimmtudag en talið er að hann hafi fengið hjartaáfall.

Stuðningsmenn AIK mættu snemma á völlinn í gærkvöldi merktir bolum til heiðurs Turina og skreyttu völlinn. Söngvar voru sungnir um Turina sem varði mark AIK frá árinu 2010. Turina lék í treyju númer 27 hjá AIK.

Mynd/Twitter
Rósir voru lagðar bakvið markið þar sem stuðningsmenn AIK sátu. Gripu þeir hvert tækifæri og sungu nafn Króatans, veifuðu fánum og hylltu sinn mann.

AIK vann 3-1 sigur í leiknum en töluverður taugatitringur virðist hafa verið hjá heimaliðinu í leiknum. Til marks um það klúðruðu heimamenn tveimur vítaspyrnum í fyrri hálfleik. Þeir sneru við blaðinu eftir að hafa lent 1-0 undir og fögnuðu 3-1 sigri með stuðningsmönnum í leikslok.

Tilkynnt hefur verið að AIK og Dinamo Zagreb mætist í ágóðaleik í Stokkhólmi þann 13. maí. Allur ágóði fer til fjölskyldu Turina en hann lék með liði Dinamo áður en hann hélt til Svíþjóðar.

Landsliðsmaðurinn Helgi Valur Daníelsson spilar með AIK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×