Fótbolti

Tottenham áfram í Evrópudeildinni eftir framlengingu

Gylfi í baráttunni í kvöld. Hann lék allan leikinn.
Gylfi í baráttunni í kvöld. Hann lék allan leikinn. Mynd/NordicPhotos/Getty
Tottenham missti niður þriggja marka forskot gegn Inter en skreið áfram í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir framlengingu. Spurs vann fyrri leikinn 3-0 og Inter vann það forskot upp. Mark Emmanuel Adebayor í framlengingu kom liðinu áfram.

Stuðningsmenn Inter virtust ekki hafa mikla trú á sínum mönnum því það var slök mæting á leikinn. Antonio Cassano veitti þó þeim sem mættu von er hann kom Inter yfir.

Rodrigo Palacio skoraði svo annað mark snemma í síðari hálfleik og hleypti gríðarlegri spennu í rimmu liðanna.

Korteri fyrir leikslok kom svo þriðja markið. Aukaspyrna Cassano fór í vegginn, þaðan í William Gallas og svo í netið. Ævintýralegt og Spurs búið að tapa niður forskotinu frá fyrri leiknum.

Esteban Cambiasso gat klárað dæmið fyrir Inter í uppbótartíma. Hann komst þá einn í gegn en hitti ekki markið. Varð því að framlengja leikinn.

Tottenham byrjaði framlenginguna með látum. Bæði Jan Vertonghen og William Gallas fengu dauðafæri á fyrstu tveim mínútunum sem þeir nýttu ekki.

Spurs hélt áfram að pressa og Adebayor skoraði loksins er hann tók frákast eftir fast skot Dembele. Spurs í góðum málum.

Inter var þó ekki búið að segja sitt síðasta orð og þegar tíu mínútur voru eftir af framlengingunni skoraði Ricardo Alvarez fyrir Inter. Það mark eitt og sér var þó ekki nóg. Inter vantaði eitt mark í viðbót til þess að komast áfram.

Rubin Kazan er einnig komið áfram í átta liða úrslit en Kazan lagði Levante, 2-0, eftir framlengdan leik. Það voru einu mörkin sem voru skoruð í leikjum þessara liða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×