Fótbolti

Eyjólfur: Leitt að SönderjyskE fær ekkert fyrir mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Eyjólfur Héðinsson mun í sumar ganga til liðs við Midtjylland frá SönderjyskE en bæði liðin leika í dönsku úrvalsdeildinni.

Eyjólfur skrifaði í vikunni undir tveggja ára samning og fer að tímabilinu loknu en þá rennur samningurinn hans við SönderyskE út. Hann er ekki fyrsti leikmaðurinn sem fer frítt frá félaginu en við það eru stuðningsmenn þess ósáttir.

„Ég skil vel að fólk sé þreytt á þessu. En svona er þetta hjá SönderjyskE eins og mörgum öðrum félögum. Liðinu gengur vel og þá hafa önnur félög áhuga á leikmönnunum," sagði Eyjólfur við danska fjölmiðla.

„Þannig er knattspyrnan. En mér finnst leiðinlegt að félagið fái ekkert fyrir mig. Ég hef átt góð ár hjá SönderjyskE og hef ekkert nema gott um félagið að segja."

„Ég hefði gjarnan viljað halda áfram en ég vil líka leita að nýjum áskorunum og halda áfram að þróa minn leik. Þegar ljóst var að við næðum ekki samkomulagi um nýjan samning komu önnur félög til sögunnar. Þá gerði ég mér grein fyrir að það væri best fyrir mig að skipta um umhverfi."

SönderjyskE og Midtjylland mætast í fyrstu umferð deildarinnar eftir vetrar frí í upphafi næsta mánaðar. Óvíst er hvort að Eyjólfur nái leiknum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×