Fótbolti

Sölvi hafnaði tilboðum í janúar - vill spila utan Norðurlanda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen.
Sölvi Geir Ottesen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sölvi Geir Ottesen átti möguleika á því að finna sér nýtt lið í janúarglugganum en vildi frekar klára samning sinn hjá FC Kaupamannahöfn þrátt fyrir að hafa fengið fá tækifæri með liðinu að undanförnu. Samningur Sölva við danska félagið rennur út í sumar.

„Ég fékk nokkur tilboð í janúar en ég sagði nei því ekkert þeirra heillaði mig. Ég vil ekki segja hvaða félög það voru en get gefið upp að þau voru fyrir utan Danmörku. Ég tók þá ákvörðun að vera hér áfram og klára samninginn minn. Mér líður vel í FCK og fjölskyldan er sátt í Kaupmannahöfn. Það er betra fyrir mig að yfirgefa félagið í sumar," sagði Sölvi Geir Ottesen í viðtali við tipsbladet.dk.

Ragnar Sigurðsson, Kris Stadsgaard og Michael Jakobsen eru allir á undan Sölva í goggunarröðinni en hann lætur það ekkert á sig fá. „Maður á aldrei að segja aldrei því það getur svo margt gerst. Við verðum bara að sjá til í sumar hvort ég fari frá Danmörku eða hvort ég fari frá FCK," sagði Sölvi.

„Ég hef ekki mikinn áhuga á því að fara í annað danskt félag því ég tel að ég sé búinn að gera mitt í danska boltanum. Ég er í stærsta félaginu og vill ekki fara til minna félags. Ég er heldur ekki mjög spenntur fyrir liði í Skandinavíu og vil heldur komast frá Norðurlöndum. Við sjáum til hvort að það lukkist," sagði Sölvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×