Þó erfitt sé að fá mjög áreiðanlegar niðurstöður úr fyrstu æfingatímum ársins gefa þeir góða vísbendingu um hversu vel stödd liðin eru eftir hléið og vinnuna við teikniborðið. McLaren virðist standa þar vel að vígi.
Mercedes-liðið er hins vegar ekki í eins góðum málum en Nico Rosberg náði aðeins að fara 14 hringi um brautina í dag því rafmagnsvandamál í nýja W04-bílnum urðu til þess að bílnum var lagt inni í bílskúr. Besti hringurinn hans sem skilaði honum áttunda besta tíma dagsins segir því lítið um hversu fljótur nýi bíllinn er.
Marussia-liðið er jafnvel í enn meiri vandræðum því nýliðinn Max Chilton átti lélegasta tíma dagsins, fimm sekúndum hægari en Button og tveimur sekúndum hægari en aðalkeppinauturinn Giedo van der Garde á Caterham-bíl. Tæknimenn Marussia eiga því mikla vinnu fyrir höndum á næstu vikum.
Pastor Maldonado var eini ökuþórinn í dag sem ók ársgömlum bíl en Williams-liðið mun ekki frumsýna nýjan keppnisbíl fyrr en 19. febrúar áður en æfingalota tvö hefst í Barcelona. Hann ók 84 hringi í Jerez í dag eða næst flesta á eftir Paul di Resta á Force India-bíl sem fór 89.
Æfingarnar í Jerez halda áfram á morgun.
Úrslit dagsins

P | Ökuþór | Lið | Tími | Bil | Hringir |
1 | Button | McLaren | 1:18,861 | 37 | |
2 | Webber | Red Bull | 1:19,709 | 0,848 | 73 |
3 | Grosjean | Lotus | 1:19,796 | 0,935 | 54 |
4 | di Resta | Force India | 1:20,343 | 1,482 | 89 |
5 | Ricciardo | Toro Rosso | 1:20,401 | 1,540 | 70 |
6 | Massa | Ferrari | 1:21,000 | 2,139 | 64 |
7 | Hulkenberg | Sauber | 1:20,699 | 1,838 | 79 |
8 | Rosberg | Mercedes | 1:20,846 | 1,985 | 11 |
9 | Maldonado | Williams | 1:20,864 | 2,003 | 84 |
10 | vd Garde | Caterham | 1:21,915 | 3,054 | 64 |
11 | Chilton | Marussia | 1:24,176 | 5,315 | 29 |