Sport

Kolbrún Alda fékk að eiga Sjómannabikarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbrún Alda Stefánsdóttir með Sjómannabikarinn.
Kolbrún Alda Stefánsdóttir með Sjómannabikarinn. Mynd/Heimasíða ÍF
Kolbrún Alda Stefánsdóttir frá Firði/SH vann Sjómannabikarinn þriðja árið í röð á Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra sem fór fram í Laugardalslauginni í dag. Kolbrún Alda vann því bikarinn til eignar og er hún fjórði sundmaðurinn sem nær því.

Kolbrún Alda fékk 679 stig fyrir frammistöðu sína í 50 metra skriðsundi. Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur afhenti keppendum þátttökuverðlaun í mótslok og Kolbrúnu sjálfan Sjómannabikarinn.

Bikarinn, sem Sigmar Ólason sjómaður á Reyðarfirði gaf, var nú veittur í þrítugasta sinn en þau þrjú sem hafa unnið Sjómannabikarinn til eignar eru Birkir Rúnar Gunnarsson, Gunnar Örn Ólafsson og Guðrún Sigurðardóttir. Alls hafa 18 sundmenn lyft sjómannabikarnum á nýársmóti fatlaðra.

Eitt Íslandsmet var sett á mótinu, það gerði Thelma Björg Björnsdóttir í 50 metra skriðsundi í flokki S-6, synti á 41,24 sekúndum.

Skátar frá Skátafélaginu Kópum stóðu heiðursvörð við mótið en það gefur mótinu skemmtilegan blæ í bland við ljúfa tóna Skólahljómsveitarinnar úr Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×