Innlent

Gekk tugi kílómetra á flóttanum

Matthías Máni Erlingsson
Matthías Máni Erlingsson

Matthías Máni flúði frá Litla-Hrauni upp úr hádegi mánudaginn 17. desember. Að sögn fangelsismálastjóra var Matthías við vinnu innan girðingar ásamt þremur öðrum föngum í umsjá eins fangavarðar. Á milli 45 mínútur og klukkutími leið þar til uppgötvaðist að hann var á bak og burt.



Leit stóð yfir í tæpa viku áður en Matthías gaf sig fram á bænum Ásólfsstöðum í Þjórsárdal snemma á aðfangadagsmorgun. Ásólfsstaðir eru í tæplega 70 kílómetra akstursfjarlægð frá Litla-Hrauni, en talið er að Matthías hafi haft viðkomu í sumarhúsum í Árnesi á flóttanum. Þegar Matthías kom fram hafði hann meðferðis riffil, öxi og hnífa sem hann er talinn hafa rænt.



Matthías er 24 ára gamall. Hann var í haust dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa ráðist á fyrrverandi eiginkonu föður síns aðfaranótt 1. apríl. Heimildir fjölmiðla herma að hann hafi haft í hótunum við konuna skömmu fyrir flóttann, en hún fór af landi brott með börnum sínum á meðan Matthías gekk enn laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×