Menning

Comic Con ekki bara fyrir nörda sem búa í kjallara

Heimildarmynd um ráðstefnuna Comic Con í Bandaríkjunum verður sýnd á Riff-hátíðinni í ár. Leikstjórinn Morgan Spurlock skemmti sér mjög vel við gerð hennar.

Nýjasta heimildarmynd Bandaríkjamannsins Morgans Spurlocks nefnist Comic Con Episode IV: A Fan"s Hope og verður hún sýnd á Riff-hátíðinni í ár. Í henni er fjallað um hina árlegu Comic Con-ráðstefnu í San Diego sem laðar að sér fjölmarga aðdáendur teiknimyndasagna á hverju ári.

Spurlock var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir heimildarmyndina Super Size Me sem fjallaði um hamborgarakeðjuna McDonald"s. Hann kom síðast hingað til lands í fyrra þegar hann kynnti The Greatest Movie Ever Sold sem fjallaði um auglýsingamennsku í sjónvarpi og kvikmyndum. Í þetta sinn kemst hann ekki til Íslands til að kynna nýju myndina vegna mikilla anna.

Spurlock segist alla tíð hafa verið mikill aðdáandi teiknimyndasagna, hryllingsmynda og ofurhetjumynda. Þegar hann fór fyrst á Comic Con-ráðstefnuna árið 2009 komst hann að því að hún uppfyllti öll þessi áhugamál hans. „Comic Con hefur fengið á sig slæmt orðspor. Fólk heldur að ráðstefnan sé uppfull af nördum sem búa í kjallaranum hjá foreldrum sínum. Í rauninni er mjög fjölbreyttur hópur fólks sem sækir hana," segir hann.

Um 150 þúsund manns mæta á Comic Con á hverju ári þar sem mikið er um dýrðir. Við gerð myndarinnar tók Spurlock viðtöl við um 150 manns, þar á meðal leikarann Seth Rogen og leikstjórann Kevin Smith. Einnig var tíu manneskjum fylgt eftir sem mættu á ráðstefnuna. „Það var virkilega gaman að gera þessa mynd. Þegar maður horfir á hana áttar maður sig á hversu mikil alvara er á bak við þetta hjá fólki. Það mætir ekki endilega þangað til að fá eiginhandaáritanir. Það er mætt til að finna sinn sess í lífinu, koma sér á framfæri eða finna makann sinn. Einn náungi ætlar að biðja um hönd kærustunnar sinnar. Mun hún segja „nei"?," spyr Spurlock.

„Annar er að leita að ákveðnu leikfangi. Mun hann finna það? Það er margt skemmtilegt sem gerist í myndinni sem allir geta tengt sig við."

Næsta verkefni þessa áhugaverða kvikmyndagerðarmanns er sjónvarpsþáttaröð fyrir CNN sem er framleidd í Bandaríkjunum en verður sýnd um allan heim. Hún fjallar um félagsleg vandamál í Bandaríkjunum en líka um hvaða áhrif þau hafa á allan heiminn.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×