Menning

Hefur leit að horfnu fólki

Fer ótroðnar slóðir Helga Arnardóttir ætlar að kafa ofan í mannshvörf á Íslandi í nýjum þáttum sem fara í loftið um áramótin. Helga er vongóð um að finna einhver svör og hvetur fólk til að setja sig í samband við hana. Fréttablaðið/valli
Fer ótroðnar slóðir Helga Arnardóttir ætlar að kafa ofan í mannshvörf á Íslandi í nýjum þáttum sem fara í loftið um áramótin. Helga er vongóð um að finna einhver svör og hvetur fólk til að setja sig í samband við hana. Fréttablaðið/valli
„Mér finnst óviðunandi að manneskja geti horfið sporlaust í okkar litla samfélagi," segir fréttakonan Helga Arnardóttir sem er að fara af stað með nýja þætti á Stöð 2 þar sem umfjöllunarefnið er mannshvörf á Íslandi.

Þættirnir bera vinnuheitið Horfið fólk og fara í loftið í kringum áramótin en þeir verða alls átta talsins. Um ólík mál er að ræða þar sem elsta málið er um fimmtíu ára gamalt og það yngsta tveggja ára. Björn Brynjúlfur Björnsson sér um framleiðslu þáttanna en hann framleiddi Sönn íslensk sakamál á sínum tíma.

Helga hefur lengi gengið með hugmyndina að þáttunum í maganum en hún hlaut blaðamannaverðlaunin í ár fyrir umfjöllun sína um Guðmundar og Geirfinnsmálin, frægustu mannshvarfsmál á Íslandi.

„Þegar ég vann þá umfjöllun kviknaði áhugi minn á að fjalla um óleyst mannshvörf hér á landi. Mér finnst þessir einstaklingar eiga það skilið hvort sem hvörf þeirra eru sjálfskipuð, slys eða saknæm. Ég finn líka að það er mikill áhugi í íslensku samfélagi fyrir mannhvörfum," segir Helga sem er rétt byrjuð að vinna þættina og hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð frá aðstandendum og lögreglu. „Mér hefur verið mjög vel tekið. Aðstandendur, sama hversu langur tími er liðinn frá hvarfinu, eru alltaf að bíða og leita að svörum um afdrif einstaklingsins."

Helga vill ekki fara nánar út í hvaða mál verða tekin fyrir í þáttunum. Hún segir að hvert mál verði að nálgast af virðingu og er vongóð um að einhver svör finnist. „Sum mál eru þess eðlis að erfiðara er að leita svara, en það er alltaf einhver sem veit eitthvað þarna úti. Eitthvert smáatriði sem hefur ekki fengið athygli," segir Helga og bætir við að aldrei sé of seint að veita upplýsingar.

Helga ætlar einnig að varpa ljósi á vinnu lögreglunnar og björgunarsveitar í tengslum við mannshvörf, ásamt sviðsettum atriðum inn á milli.

„Ég veit að ég á eftir að reka mig á veggi enda er ég að feta ótroðnar slóðir. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu verkefni og vonast til að fá góð viðbrögð," segir Helga og hvetur þá sem vilja setja sig í samband við hana vegna þáttarins að senda sér póst á netfangið helga@stod2.is.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×