Gagnrýni

Frændinn loks mættur

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bíó. Prometheus. Leikstjórn: Ridley Scott. Leikarar: Noomi Rapace, Michael Fassbender, Charlize Theron, Guy Pearce, Idris Elba, Logan Marshall-Green.



Árið 1979 sló breski leikstjórinn Ridley Scott í gegn með Alien, óhuggulegri kvikmynd þar sem sýruslefandi ófreskja gekk berserksgang um borð í geimskipi, en myndin var undanfari stórrar bylgju misgóðra framhaldsmynda sem enn sér ekki fyrir endann á. Á þessum rúmlega 30 árum sem liðið hafa frá frumsýningu myndarinnar hefur skepnan fjölgað sér, laumað erfðaefni sínu í menn, lært að synda og barist við Predator í tvígang. Og nú fáum við Prometheus – mynd sem varpar ljósi á uppruna skrímslanna og hvernig þau komust fyrst í kynni við jarðarbúa.

Væntingarnar hafa verið gífurlegar og það var löngu vitað að myndin myndi valda vonbrigðum ef reynt væri um of að bera hana saman við hina upprunalegu Alien. Sjálfur hefur Scott verið ragur við að nota orðið „prequel", og er það nokkuð skiljanlegt því þrátt fyrir að tengjast seríunni á ýmsan máta reynir Prometheus að vera sjálfstæð og skapa sína eigin stemningu. Þar tekst leikstjóranum best til og myndmálið er virkilega sterkt. Stílhrein myndatakan dregur fram það besta bæði í íburðarmikilli sviðsmynd geimskipsins Prometheus og landslagi plánetunnar LV-223.

En minna hefur verið lagt í handritið og er það persónusköpunin sem er hlunnfarin hvað mest. Nærri helmingur áhafnar skipsins er óeftirminnilegt fallbyssufóður og framan af er mjög óljóst hver aðalpersónan er. Í Alien virkaði það fullkomlega en hér er það til vansa og grunar mig að það skrifist á fljótfærni skríbentanna. Í þessum öfluga leikhópi er það aðeins Michael Fassbender sem fær virkilega að njóta sín, en það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að safaríkasta persónan sé gervimaðurinn í hópnum.

Prometheus er þrátt fyrir þetta áhugaverð og kærkomin, sérstaklega ef bág staða vísindaskáldskapar nútímans er tekin með í reikninginn. Það er þó ekki sjálfgefið að ástríðufyllstu aðdáendur Alien-seríunnar taki þessum náskylda frænda opnum örmum, þó hans hafi verið beðið í ofvæni.

Niðurstaða: Umgjörðin er glæsileg og andrúmsloftið þrælmagnað. Þess vegna á Prometheus skilið svo miklu vandaðra handrit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.