Steinsmuga Þorsteinn Pálsson skrifar 30. mars 2012 06:00 Forsætisráðherra hefur undanfarna daga gert menn út af örkinni til að bera mér á brýn að hafa staðið óheiðarlega að sölu á SR-mjöli fyrir tæpum tveimur áratugum. Með þeim samanburði á myndin af núverandi landsstjórn að líta betur út. Þegar draga á athygli frá málefnalegri rökræðu er þó heppilegra að fara rétt með. Við söluna var ráðinn óháður ráðgjafi með útboði. Það var Verðbréfamarkaður Íslandsbanka undir forystu Sigurðar B. Stefánssonar. Ráðgjafinn samdi síðan útboðsreglur sem fylgt var. Samkvæmt útboðsreglunum var væntanlegum tilboðsgjöfum gert að sýna fyrirfram að þeir hefðu fjárhagslegt bolmagn til kaupanna. Annar tveggja bjóðenda gat ekki að mati ráðgjafafyrirtækisins fullnægt þessu skilyrði. Ég ákvað að veita honum til þess frest jafnlangan tilboðsfrestinum. Það var eina frávikið frá leikreglum ráðgjafans. Við lok tilboðsfrests lagði ráðgjafafyrirtækið til að lægra tilboðinu yrði tekið enda hefði hitt tilboðið ekki uppfyllt skilyrðin þrátt fyrir frestinn. Af 157 nýjum hluthöfum voru þrír stærstu aðeins með 7,5 prósent hlut hver: Sjóvá, Alþýðubankinn og Lífeyrissjóður Austurlands. Forsætisráðherra lætur erindreka sína segja að ég hafi verið að þjóna flokksvinum. Hefðu slík sjónarmið skipt einhverju var úr vöndu að ráða því að í hópi þeirra sem stóðu að baki ógilda tilboðinu voru menn sem stóðu mér mun nær bæði persónulega og pólitískt. Reglan um að tilboðsgjafar þyrftu fyrirfram að sýna að þeir réðu við kaupin var sett meðal annars til að draga úr líkum á að kaupverðið yrði eftir á dregið út úr fyrirtækinu sjálfu eða farið yrði á svig við lög um fjárfestingar útlendinga. Þessi regla þótti þá vera nokkurt nýmæli en er nú viðurkennd varúðarregla. Hneykslun forsætisráðherra á að henni skuli hafa verið beitt segir sína sögu um siðferðileg viðhorf í stjórnarráðinu. Loks var höfðað mál til ógildingar á samningnum með því að réttum reglum þótti ekki hafa verið fylgt að áliti stefnenda. Þeir töpuðu málinu. Af þessu má ráða að eina ólyktin sem eftir situr í þessari umræðu stafar frá málefnalegri steinsmugu forsætisráðherrans. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Djöfulsins, helvítis, andskotans pakk Vilhjálmur H. Vilhjálmsson Skoðun Af hverju umræðan um Eurovision, Ísrael og jólin hrynur þegar raunveruleikinn bankar upp á Hilmar Kristinsson Skoðun Stóra vandamál Kristrúnar er ekki Flokkur fólksins Jens Garðar Helgason Skoðun Svörin voru hroki og yfirlæti Davíð Bergmann Skoðun Þeir sem hafa verulega hagsmuni af því að segja ykkur ósatt Þórður Snær Júlíusson Skoðun Eurovision: Tímasetningin og atburðarásin sögðu meira en ákvörðunin Gunnar Salvarsson Skoðun Ný flugstöð á rekstarlausum flugvelli? Magnea Gná Jóhannsdóttir Skoðun Reykjalundur – lífsbjargandi þjónusta í 80 ár Magnús Sigurjón Olsen Guðmundsson Skoðun Úthaf efnahagsmála – fjárlög 2026 Halla Hrund Logadóttir Skoðun Að klifra upp í tunnurnar var bara byrjunin Anahita Sahar Babaei Skoðun
Forsætisráðherra hefur undanfarna daga gert menn út af örkinni til að bera mér á brýn að hafa staðið óheiðarlega að sölu á SR-mjöli fyrir tæpum tveimur áratugum. Með þeim samanburði á myndin af núverandi landsstjórn að líta betur út. Þegar draga á athygli frá málefnalegri rökræðu er þó heppilegra að fara rétt með. Við söluna var ráðinn óháður ráðgjafi með útboði. Það var Verðbréfamarkaður Íslandsbanka undir forystu Sigurðar B. Stefánssonar. Ráðgjafinn samdi síðan útboðsreglur sem fylgt var. Samkvæmt útboðsreglunum var væntanlegum tilboðsgjöfum gert að sýna fyrirfram að þeir hefðu fjárhagslegt bolmagn til kaupanna. Annar tveggja bjóðenda gat ekki að mati ráðgjafafyrirtækisins fullnægt þessu skilyrði. Ég ákvað að veita honum til þess frest jafnlangan tilboðsfrestinum. Það var eina frávikið frá leikreglum ráðgjafans. Við lok tilboðsfrests lagði ráðgjafafyrirtækið til að lægra tilboðinu yrði tekið enda hefði hitt tilboðið ekki uppfyllt skilyrðin þrátt fyrir frestinn. Af 157 nýjum hluthöfum voru þrír stærstu aðeins með 7,5 prósent hlut hver: Sjóvá, Alþýðubankinn og Lífeyrissjóður Austurlands. Forsætisráðherra lætur erindreka sína segja að ég hafi verið að þjóna flokksvinum. Hefðu slík sjónarmið skipt einhverju var úr vöndu að ráða því að í hópi þeirra sem stóðu að baki ógilda tilboðinu voru menn sem stóðu mér mun nær bæði persónulega og pólitískt. Reglan um að tilboðsgjafar þyrftu fyrirfram að sýna að þeir réðu við kaupin var sett meðal annars til að draga úr líkum á að kaupverðið yrði eftir á dregið út úr fyrirtækinu sjálfu eða farið yrði á svig við lög um fjárfestingar útlendinga. Þessi regla þótti þá vera nokkurt nýmæli en er nú viðurkennd varúðarregla. Hneykslun forsætisráðherra á að henni skuli hafa verið beitt segir sína sögu um siðferðileg viðhorf í stjórnarráðinu. Loks var höfðað mál til ógildingar á samningnum með því að réttum reglum þótti ekki hafa verið fylgt að áliti stefnenda. Þeir töpuðu málinu. Af þessu má ráða að eina ólyktin sem eftir situr í þessari umræðu stafar frá málefnalegri steinsmugu forsætisráðherrans.
Af hverju umræðan um Eurovision, Ísrael og jólin hrynur þegar raunveruleikinn bankar upp á Hilmar Kristinsson Skoðun
Af hverju umræðan um Eurovision, Ísrael og jólin hrynur þegar raunveruleikinn bankar upp á Hilmar Kristinsson Skoðun