Innlent

Fáeinir dagar eftir af vertíðinni

á miðunum Vertíðin hefur gengið vel, þrátt fyrir að brælur hafi tafið skip frá veiðum með reglulegu millibili.
fréttablaðið/óskar
á miðunum Vertíðin hefur gengið vel, þrátt fyrir að brælur hafi tafið skip frá veiðum með reglulegu millibili. fréttablaðið/óskar
Loðnuvertíð er að ljúka en aðeins tuttugu þúsund tonn eru óveidd af 591 þúsund tonna aflamarki, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu. Skip HB Granda áttu í gær óveidd um 1.500 tonn af kvóta fyrirtækisins og er vonast til þess að hægt verði að ná því magni í vikunni.

Ingunn AK hefur lokið veiðum en hin skipin eru enn að.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hafa aðstæður til veiða verið erfiðar síðustu dagana vegna leiðinda sjólags. Loðnan er að mestu hrygnd og hefur legið á botninum og lítil færi gefið á sér.

„Veiðivonin hefur verið frá því um hádegisbil og fram á kvöld en það eru ekki stórar torfur sem menn hafa verið að kasta á. Við erum að vona að úr þessu rætist þannig að kvótinn náist og það vantar ekki mikið upp á til þess að það takist," segir Vilhjálmur.

Þar sem loðnan er búin að hrygna fara síðustu farmar skipanna allir í framleiðslu á fiskmjöli og lýsi. Þess má geta að þrátt fyrir að lítið sé eftir af úthlutuðum loðnukvóta hafa tíu skip verið á miðunum síðustu daga en þegar mest var stunduðu 25 skip loðnuveiðarnar, segir á heimasíðu HB Granda.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×