Innlent

Hertar kröfur vegna mengunar

Í vestmannaeyjum Sveitarfélögin í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri þurfa að íhuga framtíð sorpbrennslna sveitarfélaganna. fréttablaðið/óskar
Í vestmannaeyjum Sveitarfélögin í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri þurfa að íhuga framtíð sorpbrennslna sveitarfélaganna. fréttablaðið/óskar fréttablaðið/óskar
Með breytingu á reglugerð fellir umhverfisráðuneytið úr gildi sérákvæði starfandi sorpbrennslustöðva um brennslu úrgangs. Reglugerðin, sem nýlega var undirrituð, hefur í för með sér að allar íslenskar sorpbrennslustöðvar eiga nú að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til sambærilegrar starfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Breytingarnar eru liður í viðbrögðum stjórnvalda í ljósi þess að mælingar á díoxíni frá sorpbrennslustöðvum á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri gáfu tilefni til að endurskoða reglugerð um brennslu úrgangs. Þegar hefur sorpbrennslustöðvunum í Svínafelli og á Ísafirði verið lokað að frumkvæði sveitarfélaganna, og snertir reglugerðarbreytingin nú því eingöngu stöðvarnar í Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri.

Með breytingunni er sorpbrennslustöðvunum gert að uppfylla öll ákvæði reglugerðarinnar eigi síðar en 1. janúar 2013. Skulu rekstraraðilar tilkynna Umhverfisstofnun eigi síðar en 1. maí hvort áframhaldandi rekstur stöðvarinnar sé fyrirhugaður.

Með breytingunni er gerð krafa um reglulegar mælingar á díoxíni tvisvar á ári hjá þeim brennslustöðvum sem halda áfram rekstri. Þá er gerð krafa um samfelldar mælingar á tilgreindum efnum, til dæmis kolsýru og ryki. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×