Innlent

Vinna fyrrum bæjarfulltrúa sé skýrð

Hjálmar og Ármann Kr. Bæjarfulltrúi vill skýrari svör um ritun sögu Kópavogs en bæjarstjórinn hefur gefið.
Hjálmar og Ármann Kr. Bæjarfulltrúi vill skýrari svör um ritun sögu Kópavogs en bæjarstjórinn hefur gefið.
„Það er ekki auðvelt að draga þennan kostnað saman þar sem hann er ekki alltaf sérgreindur, heldur samþættist öðrum kostnaði hjá bænum," segir í svari Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra við fyrirspurn bæjarfulltrúans Hjálmars Hjálmarssonar um heildarkostnað bæjarins við ritun Sögu Kópavogs.

Hjálmar spurði þess utan hverjir hefðu fengið greitt í tengslum við ritun Sögu Kópavogs 1990-2010 og hversu mikið. Einnig hver afraksturinn væri.

Í svari Ármanns er, sem dæmi um hversu erfitt það sé að draga kostnaðinn saman, bent á samning sem gerður var 2008 við Björn Þorsteinsson sviðsstjóra hjá bænum um að hann léti af því starfi. Björn hafi á tveggja ára samningstíma átt að taka að sér ritun sögu Kópavogs frá árinu 1980 til 2009 auk þess að sinna öðrum verkefnum á menningar- og tómstundasviði. „Þetta vinnuframlag hefur ekki verið sérstaklega skráð niður, frekar en starfið við ritun sögunnar," útskýrir bæjarstjórinn.

Bein útgjöld segir bæjarstjórinn hins vegar nema 1.862.517 krónun, þar af hafi Sigurrós Þorgrímsdóttir fengið eina milljón. Hjálmar óskar eftir frekari skýringum. Meðal annars vill hann vita í hverju vinna Sigurrósar fólst. Hún er fyrrverandi bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×