Landið þar sem aldrei skortir kjöt Ólafur Þ. Stephensen skrifar 9. mars 2012 06:00 Norðmenn reka sem kunnugt er næstvitlausustu landbúnaðarpólitík í heimi, með háum ríkisstyrkjum, samkeppnishömlum og ofurtollum. Norsk stjórnvöld komast þó ekki með tærnar þar sem þau íslenzku hafa hælana þegar kemur að því að takmarka innflutning búvara og hindra erlenda samkeppni við framleiðendur. Þetta má til að mynda lesa út úr lýsingu sem birtist á neytendasíðu Fréttablaðsins í gær á því hvernig norska landbúnaðarstofnunin stýrir innflutningi á kjöti til landsins. Það er vissulega ófrjálst miðstýringarkerfi, rétt eins og á Íslandi. En það byggist á því að tryggja neytendum jafnt og stöðugt framboð á kjöti með því að rýmka innflutningsheimildir og lækka tolla þegar stefnir í að innanlandsframleiðslan anni ekki eftirspurn. Þannig fullnýta Norðmenn ekki eingöngu innflutningskvóta á lægri tollum samkvæmt samningum við önnur ríki, þar með talið Ísland, heldur grípur norska landbúnaðarstofnunin til lækkunar tolla til viðbótar kvótunum. Til að meta hvort grípa þurfi til tollalækkana gerir stofnunin spár fram í tímann um það hvort innlend framleiðsla fullnægi eftirspurn. Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Þrátt fyrir að borið hafi á kjötskorti, til dæmis vegna sýkinga í alifuglum og vegna þess hvað bændur eru duglegir að flytja út lambakjöt (til dæmis til Noregs), hafa heimildir til innflutnings ekki verið rýmkaðar. Þegar fregnir af kjötskorti og verðhækkunum sem af honum leiða berast landbúnaðarráðuneytinu „skoðar" það málið og kemst alltaf að sömu niðurstöðu: Á Íslandi er enginn skortur á kjöti, jafnvel þótt kaupmenn kvarti og neytendur grípi í tómt í hillunum. Athuganir ráðuneytisins virðast yfirleitt gerðar eftir á, en ekki reynt að spá fyrir um þróun framboðs og eftirspurnar þannig að hægt sé að greiða fyrir innflutningi þegar stefnir í skort. Þvert á móti fann fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, leið til að gera innflutningskvótann sem á að vera á lágum tollum dýrari en almennan innflutning með ofurtollum! Nú hefur nýr ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að undið verði ofan af breytingu Jóns Bjarnasonar og verðtolli aftur breytt í magntoll. Enn fremur verði skylt að úthluta tollkvótum þegar stefni í að ekki sé nægjanlegt framboð á innanlandsmarkaði. Þetta gerir ráðherrann tilneyddur; umboðsmaður Alþingis hafði komizt að þeirri niðurstöðu að heimildir landbúnaðarráðherra til að stýra innflutningnum að eigin geðþótta væru brot á stjórnarskránni. Þannig kann hagur neytenda að breytast eitthvað til betri vegar. Við skulum þó ekki búast við of miklu. Þegar landbúnaðarráðherrann mælti fyrir frumvarpinu fyrir stuttu tók hann skýrt fram að ekki væri „hróflað við þeirri stefnu að innlend framleiðsla skuli njóta verndar gagnvart innflutningi, eins og okkur er heimilt að gera samkvæmt alþjóðaskuldbindingum okkar, og sé kleift að standast verðsamkeppni við vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta." Með öðrum orðum: Þótt löggjafinn viðurkenni kannski að stundum geti skort kjöt á Íslandi, verður innflutta kjötið ekki of ódýrt. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun CP félagið, er það til? Steinunn Þorsteinsdóttir Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Isavia - þar sem sögur fara á flug Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Hvernig væri að Isavia setti viðskiptavini sína í forgang? Ó. Ingi Tómasson Skoðun Að ná sér Skúli S. Ólafsson Skoðun
Norðmenn reka sem kunnugt er næstvitlausustu landbúnaðarpólitík í heimi, með háum ríkisstyrkjum, samkeppnishömlum og ofurtollum. Norsk stjórnvöld komast þó ekki með tærnar þar sem þau íslenzku hafa hælana þegar kemur að því að takmarka innflutning búvara og hindra erlenda samkeppni við framleiðendur. Þetta má til að mynda lesa út úr lýsingu sem birtist á neytendasíðu Fréttablaðsins í gær á því hvernig norska landbúnaðarstofnunin stýrir innflutningi á kjöti til landsins. Það er vissulega ófrjálst miðstýringarkerfi, rétt eins og á Íslandi. En það byggist á því að tryggja neytendum jafnt og stöðugt framboð á kjöti með því að rýmka innflutningsheimildir og lækka tolla þegar stefnir í að innanlandsframleiðslan anni ekki eftirspurn. Þannig fullnýta Norðmenn ekki eingöngu innflutningskvóta á lægri tollum samkvæmt samningum við önnur ríki, þar með talið Ísland, heldur grípur norska landbúnaðarstofnunin til lækkunar tolla til viðbótar kvótunum. Til að meta hvort grípa þurfi til tollalækkana gerir stofnunin spár fram í tímann um það hvort innlend framleiðsla fullnægi eftirspurn. Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Þrátt fyrir að borið hafi á kjötskorti, til dæmis vegna sýkinga í alifuglum og vegna þess hvað bændur eru duglegir að flytja út lambakjöt (til dæmis til Noregs), hafa heimildir til innflutnings ekki verið rýmkaðar. Þegar fregnir af kjötskorti og verðhækkunum sem af honum leiða berast landbúnaðarráðuneytinu „skoðar" það málið og kemst alltaf að sömu niðurstöðu: Á Íslandi er enginn skortur á kjöti, jafnvel þótt kaupmenn kvarti og neytendur grípi í tómt í hillunum. Athuganir ráðuneytisins virðast yfirleitt gerðar eftir á, en ekki reynt að spá fyrir um þróun framboðs og eftirspurnar þannig að hægt sé að greiða fyrir innflutningi þegar stefnir í skort. Þvert á móti fann fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, leið til að gera innflutningskvótann sem á að vera á lágum tollum dýrari en almennan innflutning með ofurtollum! Nú hefur nýr ráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að undið verði ofan af breytingu Jóns Bjarnasonar og verðtolli aftur breytt í magntoll. Enn fremur verði skylt að úthluta tollkvótum þegar stefni í að ekki sé nægjanlegt framboð á innanlandsmarkaði. Þetta gerir ráðherrann tilneyddur; umboðsmaður Alþingis hafði komizt að þeirri niðurstöðu að heimildir landbúnaðarráðherra til að stýra innflutningnum að eigin geðþótta væru brot á stjórnarskránni. Þannig kann hagur neytenda að breytast eitthvað til betri vegar. Við skulum þó ekki búast við of miklu. Þegar landbúnaðarráðherrann mælti fyrir frumvarpinu fyrir stuttu tók hann skýrt fram að ekki væri „hróflað við þeirri stefnu að innlend framleiðsla skuli njóta verndar gagnvart innflutningi, eins og okkur er heimilt að gera samkvæmt alþjóðaskuldbindingum okkar, og sé kleift að standast verðsamkeppni við vörur sem fluttar eru inn á grundvelli tollkvóta." Með öðrum orðum: Þótt löggjafinn viðurkenni kannski að stundum geti skort kjöt á Íslandi, verður innflutta kjötið ekki of ódýrt.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun