Innlent

Afar jákvæðar fréttir fyrir þjóðarbúið allt

Steingrímur J. Sigfússon Segir reglugerðina um loðnukvóta vertíðarinnar með þeim skemmtilegri sem hann hefur undirritað.fréttablaðið/gva
Steingrímur J. Sigfússon Segir reglugerðina um loðnukvóta vertíðarinnar með þeim skemmtilegri sem hann hefur undirritað.fréttablaðið/gva
Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra sjávarútvegsmála, hefur undirritað reglugerð þar sem endanlegt útgefið aflamark í loðnu er ákveðið í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.

Heildaraflamark vertíðarinnar verður 765 þúsund tonn. Er það 33 þúsund tonn umfram þær spár sem lágu til grundvallar bráðabirgðaaflamarki. Aukningin til íslenskra skipa nemur alls 372 þúsund tonnum og því verður heildaraflamark íslenskra skipa tæplega 554 þúsund tonn. Þessi aukning er meiri en heildarúthlutun til íslenskra skipa á öllu árinu 2011.

Steingrímur segir um afar jákvæðar fréttir fyrir íslenskan sjávarútveg að ræða og þjóðarbúið allt þar sem áætlað er að útflutningsverðmæti vertíðarinnar geti numið allt að 30 milljörðum króna. Þessi verðmætaaukning muni hafa jákvæð áhrif á hagvaxtarhorfur fyrir árið 2012.

„Þetta er með skemmtilegri reglugerðum sem ég hef skrifað undir," segir Steingrímur. „Veiðistofninn reyndist jafn stór og vonir stóðu til á grundvelli mælinga á ungloðnu og rúmlega það. Kvótinn til íslensku skipanna er stór og gæti stækkað á síðari stigum vertíðarinnar takist erlendum skipum ekki að fullnýta allar sínar heimildir."

Steingrímur segir að búhnykkurinn sé verulegur, ef allt fer sem horfir, og gæti reynst innlegg í hagvöxt ársins upp á 0,6% miðað við verðmæti vertíðarinnar í fyrra. „Þetta ræðst af mörkuðum en ef verða sæmilegar gæftir þá stefnir í afar góða vertíð." - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×