Innlent

Sjö helgar kosta 13,5 milljónir

Í Skálafelli Nægur snjór er nú á skíðasvæðinu sem hefur verið lokað í vetur.fréttablaðið/Vilhelm
Í Skálafelli Nægur snjór er nú á skíðasvæðinu sem hefur verið lokað í vetur.fréttablaðið/Vilhelm
Stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins áætlar að það kosti 13,5 milljónir að reka skíðasvæðið í Skálafelli í sjö helgar í vetur. Nýtt belti á snjótroðara kostar 5 milljónir að sögn Diljár Ámundadóttur, formanns stjórnar.

Kristín Sævarsdóttir, fulltrúi Kópavogs í stjórn skíðasvæðanna, lét bóka á síðasta stjórnarfundi mótmæli gegn því að óskað væri eftir viðbótarframlagi til Skálafells þegar svo langt væri liðið á vetur.

Diljá segir stjórn skíðasvæðanna hafa sent sveitarfélögunum bréf með upplýsingum um áætlaðan kostnað. „Þetta eru gögn með upplýsingum en ekki fyrirspurn um viðbótarframlag. Það er mjög skýr afstaða stjórnar skíðasvæðanna að ekki verði tekið fé af framkvæmdum og rekstri Bláfjalla vegna opnunar Skálafells. Við viljum miklu frekar skoða einhvers konar samstarf næsta ár við skíðadeildir einhverra íþróttafélaga. Við erum ekki að ýta á sveitarfélögin á elleftu stundu en það getur verið að stjórn þeirra sé fús til þess að veita viðbótarfé til þess að hægt verði að opna Skálafell," segir Diljá.

Skíðadeild KR bauðst til að starfa um helgar í Skálafelli í vetur án endurgjalds. Áætlun um rekstrarkostnað tekur ekki til þess boðs.- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×