Innlent

Reynt að koma húsinu í rétt horf

Mikið tjón Miklar skemmdir urðu á veitingastaðnum í brunanum á mánudagsnótt.Fréttablaðið/stefán
Mikið tjón Miklar skemmdir urðu á veitingastaðnum í brunanum á mánudagsnótt.Fréttablaðið/stefán
Töluverðar skemmdir urðu á veitingastaðnum Sjávargrillinu á Skólavörðustíg þegar eldur kom upp í þvottahúsi í kjallara staðarins aðfaranótt þriðjudags. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstæki, hugsanlega þvottavél.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu urðu miklar skemmdir í kjallara, þar sem eldhúsið er, og reykskemmdir á veitingastaðnum sjálfum sem og í stigagangi hússins.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað að Sjávargrillinu þegar tilkynning barst um klukkan eitt og tókst að ráða niðurlögum eldsins á rúmum klukkutíma. Mikinn reyk lagði frá staðnum og barst hann út á stigaganginn og inn í íbúðir á þriðju hæð hússins. Slökkvilið þurfti að aðstoða íbúa þar við að komast út en engum varð þó meint af.

Gústav Axel Gunnlaugsson, einn eigenda Sjávargrillsins, segir að verið sé að reyna að koma húsinu í rétt horf eftir brunann. Niðri í kjallaranum hafi orðið töluvert tjón.

Lögregla vinnur að rannsókn málsins. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×