Innlent

Málum fjölgaði um 40 prósent milli ára

Fólk Í fyrra sneri fjórðungur kvartana til umboðsmanns Alþingis að töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Fréttablaðið/Vilhelm
Fólk Í fyrra sneri fjórðungur kvartana til umboðsmanns Alþingis að töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum. Fréttablaðið/Vilhelm
Á árinu 2011 bárust umboðsmanni Alþingis alls 519 kvartanir. Á sama tíma tók hann til athugunar níu mál að eigin frumkvæði. Skráð mál á árinu voru því alls 528 talsins, en það er 40 prósenta fjölgun frá árinu áður.

„Árið 2010 bárust 370 kvartanir og sjö mál voru tekin til athugunar að frumkvæði umboðsmanns. Málum hefur því fjölgað verulega," segir á vef umboðsmanns Alþingis.

„Umboðsmaður hefur jafnframt afgreitt fleiri mál á árinu en nokkru sinni fyrr eða alls 473 mál en flest höfðu þau áður verið árið 2010 eða 398," segir þar jafnframt.

Um áramótin voru alls 157 mál til athugunar hjá umboðsmanni en á sama tíma í fyrra voru 102 mál til athugunar. „Þessi staða skýrist meðal annars af því að kvörtunum til umboðsmanns fjölgaði fyrst og fremst á síðari hluta ársins og af hálfu umboðsmanns er því beðið skýringa stjórnvalda í fleiri málum en áður og fleiri mál eru einnig til lokaafgreiðslu."

Í samantekt umboðsmanns kemur fram að líkt og síðustu ár hafi flest þeirra mála sem skráð voru hjá umboðsmanni lotið að töfum á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum.

„Þeim fjölgaði úr 67 í 135. Síðustu ár hafa þessi mál verið um 18 prósent skráðra mála en voru á síðasta ári 25,5 prósent." - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×