Fótbolti

Gunnar Heiðar undir smásjá liða erlendis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/IFK Norrköping
Gunnar Heiðar Þorvaldsson gæti verið á förum frá sænska liðinu Norrköping. Þetta staðfestir umboðsmaður hans, Ólafur Garðarsson, í samtali við sænska vefmiðilinn Fotbollskanalen.

Gunnar Heiðar varð næstmarkahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar á nýafstaðinni leiktíð með sautján mörk. Norrköping hafnaði í 5. sæti deildarinnar og er Gunnar Heiðar, samkvæmt Fotbollakanalen, orðinn eitt stærsta nafnið í sænsku deildinni.

„Ég legg áherslu á að Gunnari líður mjög vel í Norrköping en það er klárt að hann hefur ekki gefið upp á bátinn að spila erlendis," segir Ólafur Garðarsson umboðsmaður Gunnar Heiðar í samtali við sænska vefmiðilinn.

„Það eru nokkur félög að sýna honum áhuga þótt ekkert sé frágengið," segir Ólafur. Gunnar Heiðar á eitt ár eftir af samningi sínum við sænska félagið.

„Það getur allt gerst. Nokkur félög sýna honum mikinn áhuga. Þau sáu hann spila nokkrum sinnum í haust svo það er ljóst að eitthvað gæti gerst í janúar," segir Ólafur sem segir Gunnar Heiðar besta leikmanninn í vítateig andstæðinganna í sænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×