Innlent

Matthías gaf sig fram fjölskyldu sinnar vegna - fékk jólaköku og hangikjöt

Karen Kjartansdóttir skrifar

„Hann sagði okkur að hann vildi ekki gera fjölskyldu sinni það að vera í felum yfir jólin," segir Sigurður Páll Ásólfsson, bóndi á Ásólfsstöðum 3 í Þjórsárdal.

Matthías Máni Erlingsson, sem strauk af Litla-Hrauni fyrr í þessari viku, gaf sig fram snemma í morgun. Hann kom að bænum Ásólfsstöðum, vopnaður riffli með hljóðdeyfi, öxi, hnífum, hamri og sporjárni. Hann virtist vel haldinn og var auk vopna með kort af svæðinu og nesti.

„Þetta var um fimm leytið. Við sváfum uppi á lofti, ég og dóttir mín. Hún vaknaði við það að barið var á húsið. Þegar hún kom niður kallaði hann til hennar og sagðist gefast upp. Hann bað hana um að hringja í lögregluna," segir Sigurður Páll.

Matthías var sóttur af lögreglumönnum og fluttur umsvifalaus á Litla-Hraun. Hann var vel vopnum búinn og hafði að auki með sér bakpoka með mat og fleira.

Sp. blm. Varstu ekki hræddur?

„Jú, auðvitað brá okkur," segir Sigurður Páll. „Svo fórum við að tala við drenginn út um eldhúsgluggann, buðum honum súpu og hangikjöt. Við gáfum honum þetta út um gluggann en hann var bara viðræðugóður að við buðum honum bara inn í sólstofu."

„Þar gáfum við honum kaffi og jólaköku og spjölluðum við hann. Hann sagði okkur að hann vildi ekki gera fjölskyldu sinni það að vera í felum yfir jólin. Svo við biðum bara eftir lögreglunni og hann borðaði á meðan."

Þegar lögreglan á Selfossi kom á staðinn lyfti Matthías upp höndum og sagðist gefast upp. Lögreglumenn fóru því næst með hann upp á Litla-Hraun en þangað var hann kominn um klukkan hálf sjö í morgun.

MYND/MHH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×