Leit að Matthíasi Mána Erlingssyni, strokufanga af Litla-Hrauni, við Eyrarbakka og Stokkseyri mun halda áfram fram eftir degi. Unnið er út frá vísbendingum sem borist hafa um ferðir Matthíasar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fannst húfa Matthíasar við Litla-Hraun fyrr í dag. Nær öruggt þykir að hann hafi misst húfuna þegar hann klifraði yfir girðinguna á mánudaginn síðastliðinn.
Þá er ekki vitað fyrir víst hvort að Matthías hafi haft vitorðsmann sem beið í bíl fyrir utan fangelsis.
Fjölmennt lið lögreglumanna frá höfuðborgarsvæðinu og Selfossi taka þátt í leitinni. Hátt í fimmtíu björgunarsveitarmenn hafa aðstoðað við leitina. Þeir leita í tíu hópum í fylgd með lögreglumönnum og fangavörðum. Leitarhundar hafa einnig verið notaðir.
Leitað hefur verið í byggingum og í fjöruborðinu.