Innlent

Sýknaður af ákæru um að hafa banað manni árið 1997

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur sýknaði í dag Sigurþór Arnarsson sem var, árið 1998, dæmdur í Hæstarétti fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða manns. Atvikið átti sér stað á veitingastaðnum Vegas í maí árið 1997. Maðurinn sat í fangelsi í átján mánuði vegna málsins.

Sigurþór Arnarsson var dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár og þrjá mánuði, þegar dómur var kveðinn upp í Hæstarétti árið 1998. Sverrir Þór Einarsson var líka dæmdur fyrir aðild að málinu.

Sigurþór var grunaður um að hafa sparkað í höfuð mannsins með þeim afleiðingum að hann lést af áverkum sínum. Þegar Hæstiréttur kvað upp dóminn árið 1998, sneri hann við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði þá komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi þótt nægjanlega sannað að það hafi verið Sigurþór sem sparkaði í manninn og veitti honum þá áverka sem leiddu hann til dauða. Enginn önnur gögn en framburður vitna voru til að styðja málssóknina og þótti framburður vitnanna ekki nægja til þess að sýna fram á sekt Sigurþórs.

Eftir að dómur var kveðinn upp í Hæstaréttið árið 1998 var málið kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að reglur um réttláta málsmeðferð hefðu verið brotnar og nokkrum árum seinna var farið að huga að kröfu um endurupptöku málsins sem leiddi til niðurstöðunnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×