Fótbolti

Umfangsmesta lyfjasvindl sögunnar | Armstrong gjörspilltur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lyfjaeftirlitssamtök Bandaríkjanna, USADA, hafa sent frá sér risavaxna skýrslu um Lance Armstrong hjólreiðakappa og keppnislið hans.

Armstrong fagnaði sigri í Tour de France sjö sinnum á ferlinum en nú er hann sakaður um að lyfjasvindl hans sé það umfangsmesta sem íþróttaheimurinn hafi kynnst.

Í skýrslunni, sem er meira en þúsund blaðsíður, er sagt frá vitnisburði 26 manna, þar af fimmtán hjólreiðakappa. Hún hefur nú verið send Alþjóðahjólreiðasambandinu sem og Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnuninni, WADA.

Framkvæmdarstjóri USADA sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann fullyrðir að skýrslan sanni með öllu að US Postal Service-hjólreiðaliðið (USPS) hafi starfrækt umfangsmesta, faglegasta og árangursríkasta lyfjasvindl sem nokkur íþrótt hafi áður kynnst.

Enn fremur sanni skýrslan að Lance Armstrong hafi notað ólögleg lyf, haft þau í fórum sínum og dreift til annarra. Nefnir hann meðal annars peningagreiðslur, tölvupósta og niðurstöður lyfjarannsókna sem styðji fyllilega við það.

„Hin sorglegi sannleikur um blekkingarleik íþróttamannanna er að USPS-liðið fjármagnaði starfssemi sína með tugmilljónum dollara frá bandarískum skattborgurum."

USADA setti Armstrong í lífstíðarbann í ágúst eftir að hann tilkynnti að hann myndi ekki svara fyrir kærur sem honum hafði verið birtar. Armstrong hefur ávallt neitað sök og þrætt fyrir hvers konar lyfjamisnotkun af sinni hálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×