Formúla 1

Hamilton leysir Schumacher af hjá Mercedes, segir Jordan

Birgir Þór Harðarson skrifar
Þó ekki sé búið að handsala vistaskiptin telur Eddie Jordan það víst að Hamilton fari til Mercedes þegar Schumacher hættir.
Þó ekki sé búið að handsala vistaskiptin telur Eddie Jordan það víst að Hamilton fari til Mercedes þegar Schumacher hættir. nordicphotos/afp
Michael Schumacher mun hætta í Formúlu 1 í annað sinn á ferlinum í lok ársins og Lewis Hamilton mun taka sæti hans hjá Mercedes. Þetta segir Eddie Jordan eftir að hafa kannað málið sálfur.

Jordan hóf að rannsaka framtíð Schumachers í vikunni eftir að Bernie Ecclestone sagði honum í beinni útsendinu á BBC, breska ríkissjónvarpinu, að "það væri synd að Schumacher væri að hætta án þess að hafa unnið mót, því hann væri sigurvegari." Jordan spurði Bernie um leið hvort Schumi væri að hætta í lok ársins en þá vildi Ecclestone ekki viðurkenna að hann vissi það.

Lewis Hamilton hefur ekki enn skrifað undir samning við McLaren-liðið en samningur hans rennur út í lok ársins. Viðræður hafa staðið yfir síðan í júlí og virðast þær hafa gengið vel, af fréttum að dæma undanfarnar vikur.

Hamilton skrifaði undir núgildandi samning sinn árið 2007 og er því á mun hærri launum en liðið sættir sig við að borga honum til frambúðar. Þess vegna hefur því verið slegið fram að Hamilton sé á leið einhvert annað á næsta ári.

"Ég sagði það fyrir nokkrum vikum að ég héldi að Lewis væri á leiðinni í burtu," segir Jordan við fréttavef BBC. "Ég hélt þá að hann hefði rætt við Ferrari, sem við vitum nú að er satt."

"Ég get nú fullyrt að fólk á vegum Hamilton hefur átt fundi með Mercedes," segir Jordan ennfremur. "Bernie Ecclestone gerði mér ljóst á sunnudaginn að Schumacher er að hætta, þó hann sjálfur hafi neitað því síðar."

Eddie Jordan, sem rak áður keppnislið sem bar hans eigið nafn í Formúlu 1, segir það nokkuð ljóst að Hamilton taki sæti Schumachers. "Í raun hefur McLaren gert Hamilton grein fyrir því að þeir geta ekki borgað honum eins há mánaðarlaun og þeir gera nú."

Talið er að Hamilton fái 15 milljónir Bandaríkjadali í mánaðarlaun. Það nemur tæpum 1,9 milljörðum íslenskra króna. "Í þokkabót þurfa McLaren að borga fyrir Mercedes-vélarnar í fyrsta sinn á næsta ári," segir Jordan.

Hvorki umboðsmaður Hamiltons né framkvæmdastjóri Mercedes-liðsins vildu tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×