Samstarf

Styrkjandi leiklistarnámskeið

Í haust kennir Inga Bjarnason á námskeiðum á vegum sjálfsræktarsamtakanna Lausnin.
Í haust kennir Inga Bjarnason á námskeiðum á vegum sjálfsræktarsamtakanna Lausnin. mynd/valli
Sjálfsræktarsamtökin Lausnin bjóða upp á leiklistarnámskeið og barnaleikhúsnámskeið fyrir börn og unglinga. Námskeiðin eru styrkt af Velferðarsjóði barna og miða að því að styrkja sjálfsmynd þeirra. Inga Bjarnason leikstjóri og kennari heldur utan um námskeiðin. Undanfarin ár hefur hún sinnt leiklistarkennslu fyrir börn, komið að barnaleiksýningum og haldið leiklistarnámskeið.

Inga Bjarnason hefur starfað sem leikstjóri undanfarin þrjátíu ár. Fyrir nokkrum árum fór hún í Listaháskóla Íslands og nam þar kennslufræði.

Síðan þá hefur hún unnið mikið með börnum og starfar meðal annars við leiklistarkennslu í Mela- og Landakotsskóla. Hún hefur haldið námskeið á vegum Velferðarsjóðs barna, komið að leiksýningum fyrir börn ásamt fleiri verkefnum. Í haust kennir hún á námskeiðum á vegum sjálfsræktarsamtakanna Lausnin.

"Ég vinn með hugtökin agi, einbeiting og samvinna. Leiklistin er gott tæki til að örva ímyndunaraflið og styrkja sjálfstraustið. Krakkarnir læra að vinna saman, að taka tillit til hvers annars og bera virðingu fyrir hugmyndum hinna. Í leiklist tjáum við tilfinningar og lærum að skilja bæði okkar eigin tilfinningar og hvað annað fólk er að ganga í gegnum.

''Leiklist er ekki bara fyrir þá sem njóta þess að vera í sviðsljósinu. Það sem er svo fallegt við leiklistina er að þar geta allir tekið þátt á sínum forsendum. Ég hef verið með nemendur sem hafa átt erfitt með bóknám, verið einangraðir félagslega eða átt erfitt uppdráttar á annan hátt. Leiklistin getur hjálpað þessum krökkum sem öðrum að efla sjálfstraustið og samskiptahæfni svo um munar.''

Um tvenns konar námskeið er um að velja. Annars vegar eru það tíu vikna leiklistarnámskeið sem haldin eru í húsnæði Lausnarinnar og svo ellefu vikna barnaleikhúsnámskeið sem endar með sýningu í Iðnó við Reykjavíkurtjörn.

"Við förum í leiki, spinnum senur og stutt leikrit, æfum framsögn og lærum slökun. Að lokum er lítil sýning á vinnu barnanna fyrir nánustu aðstandendur." Stuðlað verður að því að kenna nemendum innri stjórnun, auka öryggistilfinningu og efla sjálfsvirðingu og almenna hæfni til að takast á við umhverfið.

Tvö námskeiðanna eru fyrir 9-10 ára sem eru aldurs- og kynjaskipt. Fyrir 11-12 ára er eitt námskeið fyrir bæði kyn. Námskeiðin fara fram í húsnæði Lausnarinnar í Síðumúla 13 í Reykjavík og hefjast í byrjun september.

"Námskeiðið hefst með hugmyndavinnu, þar sem krakkarnir taka þátt í að skrifa leikritið í samvinnu við mig. Síðan hefjast æfingar og verða þær fyrst um sinn í húsnæði Lausnarinnar en færast svo niður í Iðnó þegar nær dregur sýningunni.

Það að ræða saman um hugmynd að leikriti og komast að niðurstöðu, æfa svo leikritið og sýna er frábær leið til að þjálfa aga, auka sjálfsstyrk og efla félagslega færni." Að námskeiðinu koma fleiri fagaðilar. Trúður mætir á svæðið og hjálpar til við vinnuna auk búningahönnuðar sem hjálpar til við leikmynd, búninga og förðun.

Þegar nær dregur sýningu mun æfingum fjölga í tvær til þrjár á viku eða eftir því sem þörf krefur. "Að setja upp leiksýningu krefst þess að nemendur séu tilbúnir að leggja á sig töluverða vinnu." Námskeiðið er fyrir krakka á aldrinum 11-14 ára og hefst 11. september.

"Ég hafði kennt fullorðnum við leiklistarháskóla og leikstýrt menntuðum leikurum um árabil áður en ég söðlaði um. Ég þurfti bara á endurnýjun að halda. Það er voðalega gott að endurnýja sjálfan sig."

Spurð um hvernig kynslóðamunurinn virki á krakkana þar sem Inga er töluvert eldri en þau segir hún þau líta á sig sem hálfgerða ömmu.

"Krökkunum finnst ég vera svona skrítin amma sem hleypur, hoppar og situr á gólfinu. En þegar ég vinn með krökkunum verð ég eins og tíu ára en held að sjálfsögðu ávallt fagmennskunni," segir Inga glöð í bragði. Allar nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á www.lausnin.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×