Fótbolti

Jón Guðni samdi við GIF Sundsvall

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Pjetur
Jón Guðni Fjóluson er genginn til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið GIF Sundsvall en hann skrifaði í dag undir þriggja og hálfs árs samning við félagið.

Jón Guðni hefur verið á mála hjá Beerschot í Hollandi síðan í júní á síðasta ári en fékk lítið að spreyta sig með liðinu á síðustu leiktíð.

Ari Freyr Skúlason er fyrirliði Sundsvall en þar að auki hafa nokkrir Íslendingar spilað með liðinu síðastliðin ár.

„Það er afar jákvætt að Jón Guðni valdi að spila með GIF Sundsvall og í sænsku úrvalsdeildinni. Að okkur hafi tekist að lokka leikmann á borð við Jón Guðna til félagsins sýnir að staða okkar í heimsknattspyrnunni hefur batnað og með hann innanborðs eigum við möguleika að ná nýjum hæðum," sagði Urban Hagblom, einn forráðamanna Sundsvall, á heimasíðu félagsins.

Jón Guðni er uppalinn hjá Fram og var lykilmaður liðsins áður en hann hélt utan á sínum tíma. Hann á að baki fimm leiki með A-landsliði Íslands en hann er 23 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×