Enski boltinn

Tottenham réttlætir fjarveru Bale á ÓL

Gareth Bale
Gareth Bale
Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur komið Gareth Bale, til varnar en Bale hefur verið gagnrýndur fyrir að draga sig út úr Ólympíulandsliði Breta vegna meiðsla. Bale lék engu að síður í 73 mínútur og skoraði eitt mark í æfingaleik Tottenham gegn LA Galaxy í gærkvöld.

Liðin mættust í Los Angeles og skildu jöfn, 1-1 þar sem Gylfi Sigurðsson lagði upp mark Bale á 18.mínútu.

Bale tilkynnti Stuart Pearce, þjálfara breska landsliðsins að hann gæfi ekki kost á sér vegna meiðsla í baki og mjöðm.

„Bale byrjaði að æfa með okkur í vikunni og því þurftum við að fara varlega í leiknum í gær. Hann er ungur og líkamlega sterkur og gat því lagt sig allan fram þrátt fyrir að meiðslin hafi truflað hann aðeins", sagði Villas-Boas.

„Við tókum samt vissa áhættu með að tefla honum fram í byrjunarliðinu. Við viljum hinsvegar að hann spili eins margar mínútur áður en að deildarkeppnin hefst á Englandi."

Stuart Pearce er varla jafnsáttur með að Bale hafi spilað í gær enda hafði leikmaðurinn dregið sig út úr landsliðshópnum fyrr í mánuðinum. Langt og strangt ferðalag á vesturströnd Bandaríkjanna virðist ekki hafa ýtt undir meiðsli Bale sem var í leikslok valinn maður leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×