Sundkappinn Sindri Þór Jakobsson á nú gildandi met í 200 m flugsundi í tveimur löndum eftir að hann bætti það norska á EM í Ungverjalandi.
Sindri Þór gerðist norskur ríkisborgari árið 2010 þar sem að honum þótti ferli sínum betur borgið í höndum norska sundsambandsins. Hann er þó alíslenskur - fæddur á Akranesi og á íslenska foreldra.
Sindri, sem er 20 ára gamall, synti vegalengdina á 2:00,96 mínútum og bætti norska metið um 24 hundraðshluta úr sekúndu.
Hann hefði líka bætt íslenska metið með þessum tíma en það setti hann á EM ungmenna í Prag árið 2009. Íslandsmet hans upp á 2:02,97 mínútur stendur því óhaggað.
Sindri var grátlega nálægt því að ná OST-lágmarki (gamla B-lágmarkið) fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum en honum vantaði aðeins einn hundraðshluta úr sekúndu upp á. Hann hafnaði í 22. sæti í greininni.
